11 gullverðlaun til íslenska landsliðsins

Jóhann Skúlason og Finnbogi frá Minni-Reykjum.
Jóhann Skúlason og Finnbogi frá Minni-Reykjum. Ljósmynd/lhhestar

Alls unnu Íslendingar til sex gullverðlauna í fullorðinsflokki, eitt gull í ungmennaflokki og fjögur kynbótahross stóðu efst í sínum aldursflokki á heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fram fór í Berlín 4. - 11. ágúst.

Íslenska landsliðið hlaut einnig liðsskjöldinn fyrir besta árangur liðs á mótinu. Sigurbjörn Bárðarson landsliðseinvaldur tók við þeim verðlaunum fyrir hönd Íslands. 

Þeir knapar sem unnu til gullverðlauna eru eftirfarandi: Jóhann Skúlason er þrefaldur heimsmeistari því hann vann til gullverðlauna í tölti, fjórgangi og fjórgangsgreinum á Finnboga frá Minni-Reykjum, Teitur Árnason sigraði gæðingaskeið á Dynfara frá Steinnesi með einkunnina 8,66, Konráð Valur Sveinsson var með besta tímann í 100 metra skeiði á Losta frá Ekru sem fór á tímanum 7,35 sekúndum og Guðmundur Björgvinsson á Glúmi frá Þóroddsstöðum fór 250 metra skeiðið á 21,8 sekúndum og Benjamín Sandur Ingólfsson á Messu frá Káragerði var bestur ungmenna í gæðingaskeiði með einkunnina 7,71. 

Íslensku stuðningsmennirnir í stúkunni í Berlín létu vel í sér …
Íslensku stuðningsmennirnir í stúkunni í Berlín létu vel í sér heyra. Ljómsmynd/Lhhestar

Kynbótahross sem stóðu efst í sínum flokki voru: Mjallhvít frá Þverholtum í flokki 5 vetra hryssa (8,14) og knapi hennar Þórður Þorgeirsson, Spaði frá Barkarstöðum (8,61) í flokki 6 vetra stóðhesta, knapi Helga Una Björnsdóttir, Eyrún Ýr frá Hásæti (8,58) í flokki 6 vetra hryssa og knapi hennar og nafna var Eyrún Ýr Pálsdóttir og þá reið Árni Björn Pálsson hæst dæmdu hryssunni í flokki 7 vetra hryssa sem er Elja frá Sauðholti (8,76).

Guðmundur Friðrik Björgvinsson og Glúmur frá Þóroddsstöðum fagna heimsmeistaratitli í …
Guðmundur Friðrik Björgvinsson og Glúmur frá Þóroddsstöðum fagna heimsmeistaratitli í 250 metra skeiði. Ljósmynd/Lhhestar

Íslenska liðið vann einnig til tvennra silfurverðlauna og hlaut þrenn bronsverðlaun. Ásdís Ósk Elvarsdóttir sem keppti í ungmennaflokki varð önnur í tölti á hryssunni Koltinnu frá Varmalæk og hlaut einnig silfur í samanlögðum fjórgangsgreinum. Hún deildi einnig 3. til 5. sæti í fjórgangi með Hákoni Dan Ólafssyni sem keppti á Stirni frá Skriðu og danska ungmenninu Kristine B. Jörgensen. Þá hlaut Bergþór Eggertsson á Besta frá Upphafi bronsverðlaun í gæðingaskeiði fullorðinna.  

Þess má geta að Jóhann Skúlason hefur unnið til 19 gullverðlauna á heimsmeistaramótum, 13 gullverðlaun í hringvallargreinum og sýnt sex kynbótahross sem stóðu efst í sínum aldursflokki í kynbótadómi. Jóhann keppti á Finnboga frá Minni-Reykjum. 

Benjamín Sandur Ingólfsson er heimsmeistari ungmenna í gæðingaskeiði á hryssunni …
Benjamín Sandur Ingólfsson er heimsmeistari ungmenna í gæðingaskeiði á hryssunni Messu frá Káragerði. Ljósmynd/Lhhestar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert