Allt í rúst við Laugarvatnshella

Afgreiðsla, kaffistofa og starfsstöð. Allt á hvolfi eftir veðurofsa næturinnar. …
Afgreiðsla, kaffistofa og starfsstöð. Allt á hvolfi eftir veðurofsa næturinnar. Menn þurftu að loka í dag af þessum sökum en opna aftur á morgun. Á myndinni leitast einn starfsmannanna við að ráða fram úr hrúgunni sem myndaðist í hamförunum. Ljósmynd/Laugarvatnshellar

Allt í rúst! Þegar menn mættu til vinnu við Laugarvatnshella í morgun var tjaldið þeirra fokið, rifið, og innanhúsmunir á víð og dreif um planið. Veðurofsinn hafði haft yfirhöndina um nóttina og rústað tjaldinu. 

Það þurfti að loka í dag vegna þessa. „Þetta var svolítið sjokk. Við ætluðum að mæta fyrr í morgun því loftnetið á tjaldinu hafði bognað í vindinum í gær en þegar við mættum var aðkoman svona,“ segir Smári Stefánsson, stofnandi ferðaþjónustunnar á svæðinu. 

Í þessu tjaldi hafa menn haft aðstöðu til að afgreiða miða í ferðir inn í hellinn, selja kaffi og haft starfsmannaaðstöðu. Þetta tjald, frá Seglagerðinni, hefur staðið af sér öll veður síðustu tvö sumur en gaf sig í nótt. Að vonum var mikið af lausum munum inni í tjaldinu þegar það hrundi og fauk í sundur. Dagurinn hefur farið í að taka þetta saman.

Laugarvatnshellir var áður nær alfaraleið og þar gátu vegfarendur keypt …
Laugarvatnshellir var áður nær alfaraleið og þar gátu vegfarendur keypt sér kaffisopa á leið sinni yfir Lyngdalsheiðina. Starfrækt er ferðaþjónusta á staðnum nú, þar sem fólki býðst að kaupa sig inn í leiðsögn um svæðið. Afgreiðsla slíkra erinda fór fram í tjaldinu sem fauk í sundur í nótt. Ljósmynd/Laugarvatnshellar

Boðið er upp á ferðir allt árið þannig að nú færa menn sig fyrr en ella inn í minni hellinn við Laugarvatnshella, þann hluta þar sem ábúendur höfðu skepnurnar á fyrri öldum. „Við höfum verið þar á veturna með miðasölu og förum þangað núna bara, því það er ljóst að þetta tjald fer ekki aftur upp í sumar,“ segir Smári við mbl.is.

Á Lyngdalsheiðinni náði rokið hámarki um fjögurleytið í nótt, 15,6 metrum á sekúndu í norðvestanátt, og hviður allt að 23m/s. Rokið var raunar verst um miðjan dag í gær og verður álíka vont næsta sólarhring. Hvasst á Vesturlandi.

Boðið er upp á leiðsögn allt árið um Laugarvatnshella, síðustu hella landsins sem búið var í. Frá 1910 til 1911 bjuggu í Laug­ar­vatns­helli hjón­in Indriði Guðmunds­son og Guðrún Kol­beins­dótt­ir og höfðu þar bú­skap og seldu veg­far­end­um kaffi. Sama gerðu þau Jón Þor­varðar­son og Vig­dís Helga­dótt­ir sem þarna áttu heim­ili sitt frá 1918 til 1921 og á þeim tíma eignuðust þau þrjú börn. 2017 var hann endurgerður til að bjóða ferðamönnum að skyggnast inn í horfinn heim.

mbl.is