Bíða með frekari leit í bili

Beðið verður með leit að manninum í bili.
Beðið verður með leit að manninum í bili. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á Suðurlandi hefur tekið þá ákvörðun að bíða með frekari leit að erlendum ferðamanni í og við Þingvallavatn í bili, en verður staðan könnuð aftur í fyrramálið. Er talið líklegt að maðurinn hafi siglt út á vatnið í kajak á laugardag og fallið útbyrðis. 

Mannlaus kajak og bakpoki fundust á floti á sunnanverðu vatninu við Villingavatn á laugardag. Hefur erlends ferðamanns verið leitað síðan úr „lofti, láði og legi og hefur leitin fram til þessa ekki borið árangur,“ segir í tilkynningu lögreglu. 

Lögreglan hefur haft samband við aðstandendur mannsins sem er rúmlega fertugur og frá Belgíu. Segir lögregla „yfirgnæfandi líkur“ á því að maðurinn hafi fallið útbyrðis, en strekkingsvindur hefur verið á svæðinu og aðstæður til siglinga ekki verið góðar. 

„Ekki er vitað hvaðan hann lagði frá ströndu og því leitarsvæðið stórt og erfitt. Búið er að sigla um vatnið allt og ganga fjörur meðfram því án árangurs,“ segir í tilkynningu lögreglu. 

Kafarasveit frá sérsveit Ríkislögreglustjóra fer nú yfir möguleika á því að kafað verði niður að inntaki við Steingrímsstöð. Þá sagði Davíð Már Bjarnason, upplýsingarfulltrúi Landsbjargar í samtali við mbl.is í morgun, að björgunarsveitir aðstoði lögreglu eftir fremsta megni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert