Ed Sheeran í skýjunum

Ed Sheeran á Laugardalsvellinum.
Ed Sheeran á Laugardalsvellinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ed Sheeran var í skýjunum með tónleikana sína á Laugardalsvellinum um helgina og veru sína hér á landi almennt. Þetta segir Ísleifur B. Þórhallsson hjá Senu Live.

„Við hittum hann aðeins baksviðs og fengum eina mynd með honum fyrir fyrri tónleikana. Hann var ótrúlega vinalegur og glaður og þakklátur og auðmjúkur. Það var eins og maður væri að spjalla við gamlan kunningja. Allir í kringum hann voru rosalega vinalegir og fínir og allt var roslega fagmannlegt og þægilegt,“ segir Ísleifur.

Vinna við að ganga frá eftir tónleikana er í fullum …
Vinna við að ganga frá eftir tónleikana er í fullum gangi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mun opna alls konar dyr

Hann bætir við að fyrirtækið AEG sem starfaði með Senu Live við skipulaginguna hafi einnig verið í skýjunum. „Þau kvöddu okkur og sögðu að við værum traustur samstarfsaðili þeirra. Við munum vinna meira með þeim og þetta mun örugglega opna alls konar dyr.“

Spurður hvort aðrir risatónleikar verði ekki á Laugardalsvelli næsta sumar segir Ísleifur að Sena Live hafi viljað fresta viðræðum þangað til tónleikunum með Sheeran yrði lokið. „Nú förum við í það að spjalla við alla. Nú vitum við alveg að Ísland ræður alveg við þetta og völlurinn er frábær, hann hentar bara mjög vel. Það er átak að koma honum í stand fyrir tónleika en hann er mjög góður fyrir þetta og samstarfið við KSÍ var rosalega gott,“ greinir hann frá.

„Nú standa allar dyr opnar en það breytir því ekki að það eru bara 360 þúsund manns á þessu landi og takmörk fyrir því hvað markaðurinn þolir. Það eru ekki margar vikur á ári þar sem þú getur verið nokkuð öruggur um að veðrið sé gott. Þannig að það eru ýmsar takmarkanir á því hvað hægt er að gera en núna vitum við hvað við ráðum við, hvaða listamann sem er, í raun og veru.“  

mbl.is/Kristinn Magnússon

100 manns að störfum í dag

Vinna við að taka niður sviðið og annan búnað hófst strax að loknum seinni tónleikunum og unnu tugir manna eins hratt og þeir gátu til klukkan fjögur eða fimm í nótt. Nýir starfsmenn mættu á svæðið klukkan átta og í dag verða um 100 manns að störfum, að sögn Ísleifs.

„Það er leikur á vellinum næstu helgi þannig að það er enn þá smá pressa en allt gengur vel,“ segir Ísleifur hress og reiknar með að allt klárist á morgun.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert