Hagsmunir Ratcliffe og Hafró mætist

Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar og Peter S. Williams frá Ineos …
Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar og Peter S. Williams frá Ineos Group við undirritun samningsins í dag. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

„Þetta hefur átt sér einhverra mánaða aðdraganda,“ segir Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar um samstarfssamning stofnunarinnar og breska auðkýfingsins Jim Ratcliffe sem undirritaðir voru í dag.

Ratcliffe leggur 80 milljónir í rannsóknir á laxastofninum á Norðausturlandi, þar sem hann sjálfur á stórar landareignir í grennd við laxveiðiár í landshlutanum.

Sigurður segir að Hafrannsóknastofnun fái nokkuð frjálsar hendur um hvernig rannsóknarverkefnið verði lagt upp og það sé skemmtilegt.

„Við vonum að það komi ný þekking út úr þessu öllu saman,“ sagði forstjórinn, í samtali við blaðamenn eftir kynningarfund rannsóknarverkefnisins í dag.

Sigurður segir að það sé ekkert einsdæmi að einkaaðilar á borð við Ratcliffe komi inn með fjármagn til rannsókna hjá stofnuninni, sem vinni mikið að rannsóknarverkefnum fyrir veiðifélög landsins, orkufyrirtæki og sveitarfélög. Hann segir hagsmuni Ratcliffe og Hafrannsóknarstofnunar mætast í þessu verkefni.

„Hann vill vita meira um laxinn og það eru okkar ær og kýr alla daga, að auka þekkingu á lífríki vatna og áa,“ sagði Sigurður.

Ratcliffe elski lífríkið á svæðinu

Peter S. Williams, tækn­i­stjóri og yf­ir­maður fjár­fest­inga hjá Ineos Group, fyrirtæki Ratcliffe, sagði í samtali við blaðamenn að Ratcliffe væri að ráðast í þetta verkefni þar sem hann elskaði Ísland og sérstaklega einstakt lífríkið á Norðausturlandi.

„Þetta er gott svæði til þess að gera rannsóknir, þar sem það eru bara þrjár fiskitegundir í ánum og ætti að skila góðum niðurstöðum um hvernig hægt er að fjölga einstaklingum í stofninum,“ sagði Peter.

„Þú gætir ekki réttlætt þetta verkefni út frá viðskiptalegum forsendum, þetta er bara réttlætanlegt þegar þú hugsar um þetta út frá langtímaverndun umhverfisins,“ sagði Williams.

mbl.is

Bloggað um fréttina