Lokkaði kolkrabbakrútt úr plastglasi

Kolkrabbinn er feiminn í fyrstu við að færa sig um …
Kolkrabbinn er feiminn í fyrstu við að færa sig um set yfir á öruggara heimili en í myndbandinu sést hvernig hann lætur að lokum tilleiðast. Skjáskot/YouTube

Myndband sem íslenskur kafari, Páll Sigurðsson, birti á YouTube í apríl hefur vakið athygli í netheimum. Myndbandið er hugljúf saga af kafara sem fær kolkrabba til að hætta að hafa plastglas fyrir skel á hafsbotni.

Eins og Reddit-notandi bendir á er verra að kolkrabbinn ætli að skýla sér fyrir utanaðkomandi ógn með plastglasi, sem er skammvinn vörn og gegnsæ í þokkabót. Rándýr hafsins víla ekki fyrir sér að brjóta slíka múra þegar safarík bráð er annars vegar.

Ásamt fjölda færslna á spjallborðum Reddit vegna myndbandsins hafa fjölmiðlar sýnt því áhuga. Samkvæmt því sem segir hjá Maritime Herald voru Páll og félagar hans í djúpsjávarköfun undan ströndum Indónesíu í desember þegar á vegi þeirra varð þessi kolkrabbi. Hann hefur komið þeim umkomulaus fyrir sjónir og málum vatt fram á þann veg að allri köfunarferðinni var varið í að koma kolkrabbanum til bjargar.

Þegar Páll kom að dýrinu var það í gömlu plastglasi sem eins og sést á myndbandinu eru ansi dapurlegar vistarverur. Markmiðið var að koma honum á milli tveggja skelja, þær enda öllu betur til þess fallnar að halda verndarvæng yfir kolkrabbanum. Hann er feiminn í fyrstu við að koma sér fyrir á nýju heimili en lætur að lokum tilleiðast og virðist þaðan af óhultur til frambúðar. Þar endar sagan alltént.

Á Reddit er efni myndbandsins rætt í þaula eins og er spjallborðanna von og vísa. Þar er vöngum velt yfir tilgangi þess að færa kolkrabbagreyið úr plastglasi yfir í skel og framangreind ástæða, öryggi hans sjálfs, kemur ítrekað fram. Jafnframt er þó nefnt, að ekki aðeins felur það í sér hættu fyrir hann sjálfan að vera berskjaldaður í plastglasi, heldur einnig fyrir rándýrið sem kynni að hugsa sér gott til glóðarinnar og gleypa hann í heilu lagi. Þá færi plastglasið með og allir hlytu verra af. Það væri ekki gáfulegt vistkerfi það, en væri þó táknræn afleiðing ástandsins, úthafa fullra af plasti og aðskotahlutum, sem eiga alls ekki heima á hafsbotni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert