Slá af kröfum um 149 milljónir

Blokk Félags eldri borgara við Árskóga 1-3.
Blokk Félags eldri borgara við Árskóga 1-3. mbl.is/Árni Sæberg

Félag eldri borgara hefur lagt fram sáttatilboð til kaupenda íbúða félagsins í Árskógum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, en fyrst var greint frá tilboðinu í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að vegna framúrkeyrslu við byggingu íbúðanna upp á um 400 milljónir, hafi Félag eldri borgara krafið kaupendur, sem þegar höfðu skrifað undir kaupsamning, um aukagreiðslu og nam hún á bilinu 5-6 milljónum króna, um 10% af umsömdu kaupverði.

Banki, verktakar og félagið slá af kröfum

Í kjölfar viðræðna síðustu daga hefur félagið samið um afslátt af kostnaðarverði íbúðanna. Úr verður að kostnaður kaupenda hækkar um 252 milljónir miðað við upphaflegar áætlanir, í stað 401 milljónar. Þann kostnað munu félagið, verktakar og Landsbankinn, sem fjármagnar verkið, taka á sig, en ekki liggur fyrir í hvaða hlutföllum það er. Sigríður Snæbjörnsdóttir, varaformaður Félags eldri borgara, staðfestir í samtali við mbl.is að félagið leggi sjálft tugi milljóna til. Áður hefur verið greint frá því í fjölmiðlum að félagið hafi ekki burði til að standa alfarið undir kostnaðaraukanum. Það myndi keyra félagið í þrot.

Hið nýja tilboð félagsins stendur öllum kaupendum til boða, hvort sem þeir höfðu þegar fallist á frekari kostnaðarhækkun eða ekki. Í það minnsta 17 af 23 kaupendum höfðu fallist á hækkunina, en aðrir hugðust leita réttar síns fyrir dómstólum. Til stóð að fyrirtaka yrði í máli tveggja kaupenda í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun, en þeir höfðu gert aðfararbeiðni að íbúðunum, á mannamáli krafist þess að fá íbúðirnar afhentar.

Ekki hefur náðst í lögmenn umræddra kaupenda og því liggur ekki fyrir hvort gengið verði að tilboðinu eða staðið við aðfararbeiðnina, sem taka á fyrir á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert