Slökkviskjólan kom að góðum notum

Áhöfnin á TF-LIF tók mynd úr lofti af svæðinu eftir …
Áhöfnin á TF-LIF tók mynd úr lofti af svæðinu eftir að slökkvistarfi lauk en græna slikjan sýnir svæðið þar sem vatn fór á óbrunninn mosann og hefti útbreiðslu eldsins. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Svokölluð slökkviskjóla kom að góðum notum á laugardag þegar slökkviliðsstjórinn í Grindavík óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar vegna elds sem logaði í djúpum mosa austan Djúpavatns við Lækjarvelli. 

Áhöfnin á TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var send til að aðstoða við slökkvistarf og hefta útbreiðslu eldsins þar sem erfiðlega gekk að koma slökkvibílum slökkviliðs Grindavíkur á vettvang. 

Áhöfnin á þyrlunni lenti við Kleifarvatn þar sem slökkviskjólan var gerð klár og hengd undir vélina. Að því búnu var hún fyllt af vatni og flogið með hana sjö ferðir að eldinum. Greiðlega gekk að hefta útbreiðsluna og slökkva eldinn. 

Fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni að samskipti áhafnar, slökkviliðsmanna og stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar gengu afar vel fyrir sig og lauk aðgerðum þyrlunnar á tíunda tímanum um kvöldið. 

Þyrluáhafnir Landhelgisgæslunnar hafa nokkrum sinnum í sumar æft viðbrögð við gróðureldum þar sem slökkviskjólan er notuð. 

Frá æfingu þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar fyrr í sumar þar sem slökkviskjólan …
Frá æfingu þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar fyrr í sumar þar sem slökkviskjólan er notuð. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
mbl.is