Suð í keðju og gnauð í dekkjum

Gunnar Sigurjónsson á einu hjólanna.
Gunnar Sigurjónsson á einu hjólanna. Ljósmynd/Steinmar Gunnarsson

Sniglar, bifhjólasamtök lýðveldisins, aka í gegnum Reykjavík í dag á rafmagnsbifhjólum, auk þess sem efnt verður til málþings í höfuðstöðvum Orku náttúrunnar um orkuskipti í samgöngum.

Hringferð Sniglanna, sem fagna 35 ára afmæli í ár, stendur yfir í viku og lýkur á fimmtudag. Hún er farin á rafmagnsbifhjólum frá Electric Motorcycles og Energia. Orka náttúrunnar styður við verkefnið.

„Þetta hafa verið dálítið langir dagar og það hefur þurft að hlaða reglulega en þetta hefur gengið vel. Veðrið hefur ekki spilað alveg með okkur en svona er veruleikinn,“ segir Steinmar Gunnarsson, formaður Snigla.

Venjulega fylgir nokkur hávaði bifhjólum en Steinmar segir breytinguna með rafmagninu af hinu góða. „Það eina sem maður heyrir er suðið í keðjunni og smá gnauð í dekkjunum. Að öðru leyti er hljóðlátt og mjög þægilegt að ferðast á þessu. Fyrir mig sem er óttalegur bensínhaus er þetta ný upplifun. Ég er ákaflega hrifinn af þessu.“

Ljósmynd/Steinmar Gunnarsson

Hringferðin hófst á Seyðisfirði og komu þá til landsins með Norrænu fulltrúar Electric Motorcycles og Energica með sex rafmagnsbifhjól. Fylgdarbíll í ferðinni er Tesla Model X. Energica framleiðir rafmagnsbifhjól sem eru á meðal öflugustu ökutækja heims, en notast þó ekki við koldíoxíðlosandi eldsneyti.

Meginmarkmið hringferðarinnar er að auka vitund almennings um möguleikann á orkuskiptum í samgöngum, um land allt. Hægt er að fylgjast með framgangi ferðarinnar á  Facebook og myndir sjást undir myllumerkinu #rafmognudhringferd. Málþingið í höfuðstöðvum ON hefst klukkan 17. 

mbl.is