Tæp ein og hálf komin fyrir Baldvin

Baldvin og fjölskylda á EM í fótbolta í París 2016. …
Baldvin og fjölskylda á EM í fótbolta í París 2016. Baldvin fór á alla leikina. Frá vinstri á myndinni eru Hermann Helgi, bróðir Baldvins, Ragnheiður Jakobsdóttir, móðir hans, Rúnar Hermannsson, faðir hans, og lengst til hægri Baldvin sjálfur. Ljósmynd/Aðsend

„Ég bjóst auðvitað við einhverjum stuðningi en ekki svona miklum,“ segir Ragnheiður Jakobsdóttir framkvæmdastjóri á Akureyri. Hún hleypur í Reykjavíkurmaraþoni 24. ágúst fyrir son sinn, Baldvin Rúnarsson, sem lést 25 ára 31. maí úr krabbameini í höfði eftir rúmlega fimm ára baráttu.

Ragnheiður hleypur fyrir Minningarsjóð Baldvins Rúnarssonar og hún er ekki ein, heldur hafa þeir sem þekktu Baldvin fylkt liði við hlið hennar. 36 hlaupa fyrir Baldvin. Ragnheiður hefur þegar safnað tæpum 450.000 krónum í áheitum og á sama tíma hefur Vaktin, vinahópur Baldvins, safnað rúmri 1,1 milljón til styrktar sama sjóði.

„Þetta er orðið rúmlega helmingi hærra en ég hafði vonað,“ segir Ragnheiður, sem er þakklát fyrir allan stuðninginn. Það eru enn tvær vikur til stefnu „og svo er það bara að fá alla á staðinn til að koma og hvetja okkur,“ segir Ragnheiður. Þau eru flest að norðan, sem hlaupa þennan dag, en sum þó búsett í Reykjavík.

Ragnheiður Jakobsdóttir hleypur í Reykjavíkurmaraþoninu 24. ágúst fyrir son sinn, …
Ragnheiður Jakobsdóttir hleypur í Reykjavíkurmaraþoninu 24. ágúst fyrir son sinn, Baldvin Rúnarsson, sem lést 25 ára 31. maí úr krabbameini í höfði eftir rúmlega fimm ára baráttu. Ljósmynd/Aðsend

Samheldnin hjálpar í sorginni

Þetta hefur verið erfitt sumar og fyrir hafði veturinn verið mjög erfiður þar sem Baldvini fór hratt versnandi. Hann lést 31. maí. „Þetta er erfitt verkefni sem tekur á og eru dagarnir misjafnir,  sumir erfiðari en aðrir. Þetta hefur verið meðal þess sem hefur haldið okkur gangandi,“ segir Ragnheiður. Strax í júní fór fólk að tala sig saman um að hlaupa í maraþoninu í lok sumars. 

Loks var ákveðið að láta verða af því, ekki síst með það í huga að feta í fótspor sjálfs Baldvins sem eins og frægt er orðið safnaði mest allra þegar hann hljóp sjálfur 21 kílómeter krabbameinsveikur í maraþoninu 2016. Hann gerði sér lítið fyrir og hljóp hálfmaraþonið á klukkustund og 53 mínútum til styrktar Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis, styrkti það um rúma eina og hálfa milljón.

„Svo hafa strákarnir verið að hlæja að því núna af því að þeim ber ekki saman. Sumum finnst að þeir þurfi að fara sér hægt til að massa ekki tímann hans Baldvins en aðrir sem eru alls ekki á því og vilja láta reyna á að bæta tímann,“ segir Ragnheiður.

„Þetta undirbúningsferli hefur hjálpað okkur mjög mikið, okkur sem þekktum Baldvin, fjölskyldu, vinum og vinnufélagar. Við erum með Facebook-hóp og svona að hvetja hvert annað áfram og förum svo saman suður þegar þar að kemur,“ segir Ragnheiður.

Slíkur vettvangur er kjörinn til að halda minningu Baldvins á lofti. „Við eigum í miklum samskiptum og það gefur okkur færi á að halda sambandi á milli fjölskyldunnar og vina hans. Þar getum við haldið áfram að ræða um Baldvin og verið ófeimin við að tjá okkur,“ segir Ragnheiður.

Baldvin Rúnarsson (t.v.) hljóp 21 kílómeter í Reykjavíkurmaraþoninu 2016 og …
Baldvin Rúnarsson (t.v.) hljóp 21 kílómeter í Reykjavíkurmaraþoninu 2016 og safnaði mest allra manna það ár. Aðstandendur hans hlaupa núna fyrir minningarsjóðinn um hann. Sumir ætla sér jafnvel að bæta hans tíma. Ljósmynd/Aðsend

Sjóðurinn styður málefni sem Baldvini voru kær

Baldvin greindist með krabbamein í höfði í desember 2013. Þegar hann lést í maí á þessu ári hafði gengist undir þrjár heilaskurðaðgerðir, farið í þrjár lyfjameðferðir og tvær geislameðferðir. 

Þegar Baldvin hljóp árið 2016 rann sá styrkur sem segir til KAON. Skömmu eftir að hann lést var stofnaður Minningarsjóður Baldvins Rúnarssonar, sem á skömmum tíma hefur þegar úthlutað 1,2 milljónum til Krafts, Heimahlynningar á Akureyri og DM félagsins.

Áfram verður sjóðnum ætlað það hlutverk að styðja við málefni sem voru Baldvini kær, svo sem fyrrgreind samtök en einnig ýmiss konar íþróttastarf ungmenna og mannúðarmál. Þeir styrkir verða ekki ólíklega miðaðir áfram við norðlensk málefni.

mbl.is