„Tökum þessu sem ögrun“

Grafa verktaka VesturVerks við landamerki að Seljanesi.
Grafa verktaka VesturVerks við landamerki að Seljanesi. Ljósmynd/Aðsend

Hluti landeigenda að Seljanesi í Ingólfsfirði finnst þeim hafa verið ögrað þegar gröfu verktaka sem annast framkvæmdir á vegum VesturVerks á Ófeigsfjarðarheiði, var lagt við landamerki að Seljanesi. Hafa landeigendur sagst ætla að koma í veg fyrir að framkvæmdirnar færist inn á land þeirra með öllum tiltækum aðferðum. 

„Þeir lögðu gröfunni bara alveg við landamerkin. Ég veit ekki hvað þeim gengur til með þessu. Við tökum þessu bara sem ögrun við okkur. Við vitum að þeir eru að vinna þarna töluvert innar í firðinum og að koma með gröfuna upp að landamerkjunum og planta henni þarna er bara klárlega ögrun,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson, talsmaður hluta Landeigenda að Seljanesi. 

Fyr­ir­huguð Hvalár­virkj­un hef­ur verið gríðarlega um­deild í Árnes­hreppi og víðar. Fyr­ir liggja sjö kær­ur hjá Úrsk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála vegna fram­kvæmd­ar­leyf­is sem hrepps­nefnd Árnes­hrepps veitti Vest­ur­Verki í byrj­un sum­ars. 

Guðmundur Hrafn Arngrímsson.
Guðmundur Hrafn Arngrímsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafa bæði land­eig­end­ur á svæðinu sem og ýmis nátt­úru­vernd­ar­sam­tök kært fram­kvæmd­ar­leyfið og meðal ann­ars borið fyr­ir sig meinta laga­lega van­kanta á meðferð máls­ins. 

Þá hefur hluti landeigenda Drangavíkur kært framkvæmdarleyfið og deiliskipulag Árneshrepps til Héraðsdóms Reykjavíkur. Hefur verið fallist á flýtimeðferð í málinu. 

Framkvæmdirnar nálgast Seljanes óðum

„Þeir hafa enga heimild til að fara inn í landið. Það eru bara skýr fyrirmæli frá Vegagerðinni og samningum sem þeir hafa gert við hreppinn og Vegagerðina um að þeir fari ekki inn í land Seljanes án þess að hafa samráð og fá samþykki frá landeigendum,“ segir Guðmundur og bætir við að samþykki landeigenda liggi ekki fyrir. 

Guðmundur segir verktaka VesturVerks nú vinna að framkvæmdum á Ófeigsfjarðarvegi um 700 metrum frá Seljanesi. Því sé ekki langt að bíða eftir að framkvæmdirnar færist inn á land Seljaness. 

„Það getur bara gerst mjög hratt. Þeir eru þarna að róta inn með hlíðinni og ég veit að þeir hafa ekkert efni til að bera ofan í veginn vegna þess að þeir hafa ekkert aðgengi að fyllingarefni og eru þess vegna að nota tímann núna til að róta upp vegstæðinu. Þeir gera skeringar inn í fjallið og fylla út í sjó með drullunni og eyðileggja fjöruna í leiðinni. Sú framkvæmd gengur hraðar fyrir sig því þeir eru ekki að eyða tímanum í að bera ofan í veginn,“ segir Guðmundur. 

Kæra ákvörðun Vegagerðarinnar til ráðuneytisins

Landeigendur að Seljanesi hafa nú kært ná ákvörðun Vegagerðarinnar um að framselja veghald á Ófeigsfjarðarvegi til Vesturverks, til samgönguráðuneytisins. 

VesturVerk hefur fengið framkvæmdarleyfi frá Árneshreppi vegna fyrirhugaðar Hvalárvirkjunar.
VesturVerk hefur fengið framkvæmdarleyfi frá Árneshreppi vegna fyrirhugaðar Hvalárvirkjunar. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við bíðum bara átaka. Það kemur skýrt fram í okkar lögfræðiáliti og öllum samningum og fyrirmælum sem verktakinn hefur fengið að þeir hafa enga heimild til þess að fara inn í landið. Í lögfræðiálitinu er allur vafi tekinn af því að Vegagerðin hafi enga heimild til þess að ráðstafa þessu vegastæði við þessa framkvæmd og hefur enga heimild til að framselja veghald með þessum hætti sem þeir hafa gert.

„Þetta kemur mjög skýrt fram og við höfum kært þessa niðurstöðu Vegagerðarinnar til samgönguráðuneytisins og sömuleiðis óskað eftir því að réttaráhrifum ákvörðunar Vegagerðarinnar verði frestað þangað til að málið verði til lyktar leitt,“ segir Guðmundur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert