Útlit fyrir slyddu og snjókomu til fjalla

Gul viðvörun er í gildi víða á landinu í dag, …
Gul viðvörun er í gildi víða á landinu í dag, mánudag, ýmist vegna hvassviðris, rigningar eða snjókomu. Kort/Veðurstofa Íslands

Það gengur í norðan 10-18 m/s með morgninum og verður hvassast vestast á landinu, en hvöss norðvestanátt við norðausturströndina í fyrstu. Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Faxaflóasvæðið, Strandir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi, Austfirði og miðhálendið, en á síðastnefnda staðnum má gera ráð fyrir hvassviðri og snjókomu eða slyddu.

Búast má við rigningu um landið norðanvert, talsverðri eða mikilli á köflum, en slyddu eða snjókomu til fjalla. Það styttir síðan upp á Norður- og Austurlandi síðdegis. Hiti verður á bilinu 3 til 8 stig, en skýjað og þurrt syðra og hiti þar á bilinu 9 til 14 stig.

Segir í athugasemdum veðurfræðings að þeir sem hyggi á ferðalög á norðanverðu hálendinu og á fjöllum nyrðra ættu því að fylgjast vel með veðurspám og búa sig eftir aðstæðum

Á morgun er útlit fyrir norðaustanátt, 8-15 m/s, hvassast á Vestfjörðum, en hægari vind norðaustanlands. Búast má við vætu með köflum, en þurru veðri og bjartviðri sunnanlands. Þá mun heldur hlýna.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert