Deilur um Norðurturn fyrir Hæstarétt

Deila eigenda Smáralindar við eigendur Norðurturnsins fer fyrir Hæstarétta. Deilan …
Deila eigenda Smáralindar við eigendur Norðurturnsins fer fyrir Hæstarétta. Deilan snýst meðal annars um merkingu bílastæða. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur hefur veitt fasteignafélaginu Regin, sem á Smáralind, leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar frá því í júní í máli Norðurturnsins hf. gegn Eignarhaldsfélaginu Smáralind ehf. og Kópavogsbæ. 

Í júní sneri Landsréttur dómi héraðsdóms þar sem eigendur Norðurturnsins deildu við eigendur Smáralindar og Kópavogsbæ um samnýtingu bílastæða, frávætulagna og gagnkvæman umferðarrétt við byggingarnar í Kópavogi. 

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði kröfum eigenda Norðurturnsins frá dómi og dæmdi þá til að greiðar eigendum Smáralindar og Kópavogsbæ þrjár milljónir króna hvoru í málskostnað.  

„Með dómi Landsréttar var viðurkennd kvöð sem veitti Norðurturninum hf. rétt til nýtingar bílastæða á lóðinni við Hagasmára 1,“ segir í tilkynningu frá Regin. Eignarhaldsfélagið Smáralind óskaði í kjölfar dómsins eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dóminum. Norðurturninn hf. lagðist gegn beiðninni en Kópavogsbær taldi að taka ætti hana til greina.

Hæstiréttur samþykkti áfrýjunarbeiðnina þar sem dómurinn telur að líta verði svo á að dómur í málinu myndi hafa almennt gildi um stofnunarhætti kvaða. Endanleg niðurstaða málsins bíður því dóms Hæstaréttar.

mbl.is