Gróður á hálendinu sérlega viðkvæmur

Myndir sem Tómas Guðbjartsson læknir birti í gær sýna för …
Myndir sem Tómas Guðbjartsson læknir birti í gær sýna för í mosa á hálendinu eftir fjallahjól. Öllujöfnu fylgja hjólreiðamenn merktum slóðum en undantekningar eru á því. Efla þarf fræðslu og merkingar, að sögn upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar. Ljósmynd/Tómas Guðbjartsson

Landverðir, sem og göngumenn ýmsir, hafa orðið varir við för eftir reiðhjól utan göngustíga í Friðlandi að Fjallabaki, eins og mbl.is sagði frá í gær. Tómas Guðbjartsson læknir benti á för í mosa jafnt sem ógrónum melum, sem augljóslega höfðu orðið af völdum reiðhjóla. 

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun þekkja landverðir á svæðinu vandann. Skemmdirnar eru að vonum misalvarlegar en upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar segir þær verstar þar sem landið er gróið. Og gróður á hálendinu er sérlega viðkvæmur fyrir hvers konar raski. 

„Þar sem fjallahjólreiðar eru orðnar æ vinsælli hér á landi á undanförnum árum er nauðsynlegt að bregðast við því með regluverki, fræðslu og upplýsingum um hvernig ferðum skal háttað í viðkvæmri náttúru hálendisins. Umhverfisstofnun lætur ekki sitt eftir liggja í þeim efnum,“ segir Björn Þorláksson upplýsingafulltrúi. 

Gróður á hálendinu er sérlega viðkvæmur fyrir hvers konar raski.
Gróður á hálendinu er sérlega viðkvæmur fyrir hvers konar raski. Ljósmynd/Tómas Guðbjartsson

Hann segir að langflest hjólreiðafólk sé þó vel meðvitað um að einungis skuli hjólað á vegum og göngustígum eins og lög gera ráð fyrir. Vandinn er þannig ekki mikill að vexti en förin utan vega sýni þó að bregðast þurfi við með aukinni fræðslu. 

„Við höfum náð góðum árangri í að fræða og upplýsa hjólreiðafólk sem ferðast um hálendið. Flestir eru til fyrirmyndar og hjólreiðar eru holl líkamsrækt með tengingu við náttúruna og hafa hjólreiðar margt fram yfir mengandi umferð ökutækja sem auka losun gróðurhúsalofttegunda með jarðeldsneyti,“ segir Björn. Þannig séu þær hvað sem öllu líði öllu betri en bílaumferð um hálendið, en þó þurfi að fylgja ákveðnum viðmiðum í þessum efnum sem öðrum.

Aðrar skemmdir en þær sem urðu á Grænahrygg að Fjallabaki í júlí hafa ekki verið kærðar til lögreglu. Rannsókn á þeim skemmdum er lokið en lögreglan á Suðurlandi hefur ekki tekið ákvörðun í málinu, það er, hvort viðkomandi verði sektaður eða ekki. Fyrir liggur hver ber ábyrgð á málinu og hefur sá sagst iðrast gjörða sinna og beðist afsökunar. Eftir 7-10 daga verður upplýst um til hvaða refsiaðgerða verði gripið ef það verður yfir höfuð gert.

Umhverfisstofnun kærði skemmdirnar á Grænahrygg til lögreglu en ákvörðun um …
Umhverfisstofnun kærði skemmdirnar á Grænahrygg til lögreglu en ákvörðun um sekt verður tekin eftir 7-10 daga. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is