HÍ meðal 100 bestu jarðvísindaháskóla heims

Háskóli Íslands færist upp um eitt sæti milli ára og …
Háskóli Íslands færist upp um eitt sæti milli ára og er í 6. sæti yfir fremstu háskóla heims á sviði fjarkönnunar samkvæmt hinum virta Shanghai-lista sem metur frammistöðu háskóla á einstökum fræðasviðum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Háskóli Íslands er í sjötta sæti á hinum virta Shanghai-lista yfir fremstu háskóla heims á sviði fjarkönnunar. Skólinn er enn fremur í hópi hundrað bestu háskóla innan jarðvísinda.

Skólinn færist upp um eitt sæti milli ára og er í 6. sæti yfir fremstu háskóla heims á sviði fjarkönnunar. ShanghaiRanking Consultancy hefur allt frá árinu 2003 birt heildarlista yfir bestu háskóla heims og undanfarin tíu ár sams konar lista yfir framúrskarandi háskóla innan fræðasviða náttúruvísinda, lífvísinda, læknavísinda, verkfræði og félagsvísinda. 

Mat ShanghaiRanking Consultancy í ár nær til 54 fræðigreina um og 1.700 háskóla um allan heim. Fjarkönnunar snýst um að safna og vinna upplýsingar úr myndgögnum um yfirborð jarðar sem fengin eru úr myndum frá drónum, flugvélum og gervitunglum. „Fjarkönnun er mjög mikilvægt svið fyrir Íslendinga, þar sem unnið er þvert á fræðigreinar, og nýtist m.a. til þess að fylgjast með áhrifum eldgosa og þeim öru breytingum sem eru að verða í heiminum samfara hlýnun jarðar, svo sem hopun jökla, skógareldum og breytingum í heimshöfunum,“ segir í tilkynningu frá HÍ. 

Háskóli Íslands er enn fremur í 76.-100. sæti á sviði jarðvísinda samkvæmt Shanghai-listanum og í 100.-150. sæti innan hjúkrunarfræði. Enn fremur raðast skólinn í sæti 151-200 innan lífvísinda og þá er hann í hópi 300 bestu á sviði landfræði, 400 bestu á sviði líffræði mannsins, loftslagsvísinda, klínískrar læknisfræði og lýðheilsuvísinda og 500 bestu innan eðlisfræði og vistfræði.

Listi ShanghaiRanking Consultancy er annar af tveimur virtustu og áhrifamestu matslistum yfir bestu háskólana heims, en hinn er Times Higher Education World University Rankings. Háskóli Íslands hefur verið á þeim síðarnefnda allt frá árinu 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert