Hundrað hættu við þátttöku

Keppendur í Jökulsárhlaupinu um síðustu helgi.
Keppendur í Jökulsárhlaupinu um síðustu helgi. Ljósmynd/Helga Þyrí Bragadóttir

Aðstæður í Jökulsárhlaupinu sem var haldið um síðustu helgi hafa aldrei verið erfiðari sökum veðurs og blautra stíga. Fyrir vikið voru tímamörk rýmkuð um tuttugu mínútur. Af þeim 440 manns sem voru skráðir voru um 100 sem mættu ekki.

„Veðrið var ekki alveg með okkur í liði. Þetta er í raun í fyrsta skiptið sem við lendum í svona veðri,“ segir Hilmar Valur Gunnarsson, verkefnastjóri Jökulsárhlaupsins, sem var haldið í 16. sinn.

„Það var norðanslagveður sem gerði alla vinnuna í kringum þetta dálítið erfiðari en hlaupið gekk ótrúlega vel upp. Það voru engin óhöpp og engin slys á fólki, sem er með ólíkindum miðað við að allir stígar voru mjög blautir og hálir. Það er ótrúlegt lið sem er að hlaupa þetta og það var ekki að kvarta mikið. Þetta gekk framar vonum,“ segir hann en um 50 sjálfboðaliðar unnu við skipulagninguna. 

Ljósmynd/Helga Þyrí Bragadóttir

Um þrjátíu manns afboðuðu sig sem höfðu skráð sig til keppni, auk þess sem 79 mættu ekki á sjálfan hlaupadaginn. Þrátt fyrir slæmar aðstæður í ár voru hlaupararnir þremur fleiri en í fyrra þegar sól var og 20 stiga hiti. Þá hlupu 337 manns en núna sprettu 340 úr spori. 

Ljósmynd/Helga Þyrí Bragadóttir

Jökulsárhlaupið fer fram í fallegu umhverfi Jökulsárgljúfra í Vatnajökulsþjóðgarði. Hægt er að hlaupa þrjár mismunandi vegalengdir: 32,7 km, 21,2 km og 13,2 km. Lagt er af stað frá mismunandi stöðum fyrir hverja vegalengd en öll hlaupin enda í Ásbyrgi.

Úrslit hlaupsins

Einnig má sjá formleg úrslit á vef Tímatöku ehf. sem annaðist tímatökuna fyrir Jökulsárhlaupið.

Ljósmynd/Helga Þyrí Bragadóttir
mbl.is