Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði 1000

Sjö fámennustu sveitarfélögin eru með íbúafjölda á bilinu 40–91 en …
Sjö fámennustu sveitarfélögin eru með íbúafjölda á bilinu 40–91 en það fjölmennasta, Reykjavíkurborg, er með tæplega 129 þúsund íbúa. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verður 250 frá árinu 2022 en 1.000 frá árinu 2026, verði stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019 til 2033 að veruleika. Þingsályktunartillaga um áætlunina var birt í samráðsgátt stjórnvalda í dag og er þetta í fyrsta sinn sem slík heildstæð stefna á vegum ríkisins er mótuð fyrir sveitarstjórnarstigið.

Fram kemur í greinargerð um stefnuna að áhrif tillögurnar verða þau að frá og með árinu 2022 mun sveitarfélögum fækka um 14, en allt að 40 frá og með árinu 2026. Heildarfjöldi sveitarfélaga gæti því farið niður í um 30 talsins. 

Sveitarfélög eru nú 72 talsins en 40, eða 55,6%, eru með færri en eitt þúsund íbúa. Þar búa hins vegar innan við 5% þjóðarinnar. Sjö fámennustu sveitarfélögin eru með íbúafjölda á bilinu 40–91 en það fjölmennasta, Reykjavíkurborg, er með tæplega 129 þúsund íbúa. 

Tillagan krefst breytingar á sveitarstjórnarlögum þar sem ákvæði um lágmarksfjölda íbúa var fellt út úr sveitarstjórnarlögum árið 2011. Í greinargerð kemur fram að þrátt fyrir þau sjónarmið að það sé andstætt stjórnarskrárbundnum sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga að þvinga fram sameiningar án þess að bera tillögu þar að lútandi undir íbúa telur starfshópurinn sem vann tillöguna að fordæmið sýni að það sé viðurkennd leið að lögfesta lágmarksíbúafjölda. Slíkt þurfi hins vegar að ákveða með lögum frá Alþingi. 

Stefnt er að framlagningu þingsályktunartillögunnar á Alþingi í byrjun október, að því er fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu

mbl.is

Bloggað um fréttina