„Mjög lítið miðað við 2015“

Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar.
Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Undanfarin ár hefur Fjallabyggð verið markvisst að endurbæta holræsakerfið í báðum byggðarkjörnum með tilliti til mengunar- og umhverfismála, ásamt því að gera kerfið betra varðandi aukið álag vegna flóða og úrkomu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Fjallabyggð sendi frá sér í kjölfar mikillar úrkomu þar nyrðra seinustu daga, sem endaði með því að vatn flæddi inn í a.m.k. þrjú hús á Siglufirði og tvö í Ólafsfirði. Í samtali við mbl.is segir Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, að ofannefndum endurbótum á holræsakerfinu sé að þakka að ekki fór verr.

Ekki eins tilbúnir þá og nú

„Þetta var sem betur fer mjög lítið miðað við það sem var 2015,“ segir Gunnar og minnist þess þegar mikið tjón varð í bænum þegar Hvanneyrará flæddi yfir bakka sína og ræsi höfðu ekki undan og aurborið vatn barst um götur bæjarins.

„Þá voru menn ekki svona tilbúnir eins og við erum núna. Við erum búin að betrumbæta holræsakerfið og ofanvatnsvarnir og annað.“ Spurður hvort ekki hefði verið vonað að með endurbættu holræsakerfi yrði viðlíka vatnsvandi úr sögunni með öllu útskýrir Gunnar: „Þetta gerist þegar það er flóð. Þá kemst vatnið ekki úr lögnunum út í sjó. Þá skrúfast þetta upp í lögnunum og kemur þrýstingur, og vatnið kemur upp í kjallarana, sem eru sumir hverjir mjög lágir.“

Segir hann að margir hafi sett upp varnir í kjallara, en ítrekar að ástandið sé ekki það sama og vatnsviðrinu 2015. „Þetta er bara mjög svipað vatnsmagn og var 2015, en það kom á lengri tíma en þá. Við hefðum farið illa út úr því ef við hefðum ekki verið búnir að þessum endurbótum.“

Aðspurður segir Gunnar að tjónþolar vegna vatnsviðrisins geti snúið sér til Náttúruhamfaratryggingar Íslands, áður Viðlagatryggingar Íslands.

mbl.is