Norðaustlæg átt í kortunum næstu daga

Veðurútlit á hádegi í dag, þriðjudag.
Veðurútlit á hádegi í dag, þriðjudag.

Það verður norðanátt 8-15 m/s á landinu í dag. Hvassast verður vestast á landinu, en mun hægari vindur austanlands. Búast má við rigningu norðvestanlands, einkum á Ströndum og norðan til á Vestfjörðum. Skýjað verður svo og stöku skúrir austan til, einkum síðdegis, en bjart með köflum suðvestan til. 

Á morgun verður áfram norðanátt, 5-13 m/s, og hvassast við vestur- og norðurströndina. Útlit er fyrir rigningu fyrir norðan, síðdegisskúrir suðaustanlands, en áfram verður víða bjart suðvestan til.

Hiti verður á bilinu 7 til 15 stig að deginum, hlýjast sunnanlands. 

Norðaustlæg átt verður í kortunum næstu daga með áframhaldandi rigningu fyrir norðan og svölu veðri. „Eins og svo oft áður í þessari stöðu er bjartara veður sunnan heiða og mildara, en þó má reikna með að dropar falli þar einnig á stöku stað í formi síðdegisskúra,“ að því er segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings. Það virðist þó ætla að draga úr vætunni fyrir norðan í lok vikunnar.

Veðrið á mbl.is

mbl.is