„Ómöguleiki“ sé fyrir afhendingu

Í dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun sögðu lögmenn íbúðakaupendanna …
Í dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun sögðu lögmenn íbúðakaupendanna að það væri málinu algjörlega óviðkomandi hvort Félag eldri borgara skuldaði verktakanum fyrir bygginguna, þar sem verktakinn, MótX, væri ekki aðili málsins. mbl.is/Árni Sæberg

„Varnir félagsins eru tvennar,“ segir Daði Bjarnason lögmaður Félags eldri borgara, sem hefur nú eina viku til þess setja saman greinargerð í málum kaupenda tveggja íbúða í Árskógum 1-3 í Mjóddinni sem krefjast þess fyrir dómi að fá íbúðir sínar afhentar.

Daði segir að í fyrsta lagi sé „ómöguleiki fyrir afhendingu“, þar sem félagið hafi ekki lyklana að íbúðunum og ekki sé búið að gera upp við verktakann sem hafi þá í sinni vörslu.

„Það er ekki búið að gera upp við verktakann, það var tilkynnt í gær að búið væri að lækka skuldir þarna á milli og bilið væri minna, en það eru ennþá 250 milljónir útistandandi,“ segir Daði í samtali við blaðamann mbl.is.

Í dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun sögðu lögmenn íbúðakaupendanna það málinu algjörlega óviðkomandi hvort Félag eldri borgara skuldaði verktakanum fyrir bygginguna, þar sem verktakinn, MótX, væri ekki aðili málsins.

Daði segir að í öðru lagi sé það svo þegar verið sé að meta innsetningargerðir, kröfur aðila um að fá eitthvað afhent með dómsúrskurði eins og um er að ræða hér, sé „horft til ákveðins hagsmunamats á milli kaupanda annars vegar og seljanda hins vegar.“

Daði Bjarnason, lögmaður Félags eldri borgara í málinu.
Daði Bjarnason, lögmaður Félags eldri borgara í málinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Og þó að allir hafi mikla samúð með stöðu þeirra kaupenda sem ekki hafa fengið afhent en eru búnir að selja [fyrri eignir sínar], þá verður félagið – og lögin gera ráð fyrir að það megi – horfa til heildarhagsmuna og horfa til þeirra heildarhagsmuna sem eru þá hér í tilviki seljanda, af því að það kemur upp villa í kaupsamningi, sem uppgötvast eftir að búið er að skrifa undir. Við því verður að bregðast og þá þarf að horfa til hagsmuna heildarinnar en ekki bara þeirra sem ganga fyrstir fyrir hornið, þó að allir hafi ákveðna samúð með þeim málstað,“ segir Daði.

Enginn ómöguleiki til staðar

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður hjóna sem krefjast þess að fá íbúð sína afhenta segir í samtali við mbl.is að varnir félagsins séu litlar sem engar. Hún segir fasteignaviðskipti vera formföstustu tegund viðskipta og ljóst sé að um leið og komið sé bindandi kauptilboð beri báðum aðilum að standa við samninginn.

„Í framhaldinu er gerður kaupsamningur og það skjal er algjörlega bindandi, þar er nákvæmlega sundurliðað hvað ber að greiða, hvenær ber að afhenda og hvað er innifalið í sölunni. Það myndi hreinlega allt fara á hliðina í samfélaginu ef að fólk myndi ákveða allt í einu að standa ekki við kaupsamninga, krefjast hærri greiðslna af einhverjum ástæðum, það gæti verið að eign hafi hækkað í verði frá því að samningur var gerður, eða hvað það nú er,“ segir Sigrún Ingbjörg.

Sigrún Ingibjörg og Sigurður Kári í dómsal í morgun.
Sigrún Ingibjörg og Sigurður Kári í dómsal í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Einhverskonar varnir um að það sé ómöguleiki að afhenda eign, ég átta mig bara ekki á hvernig er hægt að rökstyðja það. Það er alveg ljóst að Félag eldri borgara var eigandi, þeir seldu eignina og það er enginn ómöguleiki að afhenda slíka eign,“ segir Sigrún.

Mannlegri leið sé til

Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður 87 ára gamallar konu sem keypti íbúð í blokkinni, segir að hann telji Félag eldri borgara ekki eiga sér neinar varnir. Það að „kokka upp einhverjar varnir“ sé bara til þess fallið að drepa málinu á dreif og gera stöðu þeirra sem ekki fá íbúðir sínar afhentar erfiðari.

„Ég veit ekki hvaða hagsmuna félagið er að gæta með því að reyna að draga úrlausn þessarar kröfu. Ég átta mig hreinlega ekki á því hvað félaginu gengur til,“ segir Sigurður Kári, sem nefnir að hann hafi bent félaginu á að gæfulegra hefði verið að afhenda fólki íbúðir sínar að „standa við gerða samninga gagnvart kaupendum, afhenda íbúðirnar og þá eftir atvikum með fyrirvara um rétt til frekari greiðslna vegna þeirra mistaka sem gerð voru og reyna þá að sækja mismuninn til kaupendanna.“ Það hefði verið mannlegri leið.

„En í staðinn fara þeir þá leið að taka við greiðslum og neita að afhenda. Það er ólöglegt. Það er brot á kaupsamningnum og það er í algjörri andstöðu og við lög og rétt og þær reglur sem gilda um fasteignakaup. Ég get ekki séð fyrir mér að neinn dómari fallist á það að seljandi fasteignar geti komist upp með það að skrifa undir kaupsamning, taka við kaupsamningsgreiðslunni en neita síðan að afhenda íbúðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert