Veittist að fólki við Sundhöllina

Tilkynnt var um líkamsárás í Breiðholtinu á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Komið hafði til slagsmála milli tveggja manna og reyndist annar þeirra vera með stungusár á handlegg er lögregla kom á staðinn. Sá vildi hins vegar hvorki þiggja aðstoð frá lögreglu né sjúkraflutningamönnum.

Maðurinn sem grunaður er um að hafa veitt áverkann var hins vegar handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.

Laust fyrir klukkan tíu í gærkvöldi barst lögreglu svo tilkynning um ölvaðan mann sem var að veitast að fólki við Sundhöllina. Lögregla fór á staðinn og handtók manninn sem var látinn sofa úr sér í fangageymslu. Er maðurinn jafnframt grunaður um að hafa haft fíkniefni í fórum sínum og fyrir brot á lyfjalögum.

Það var svo klukkan eitt í nótt sem lögregla hafði afskipti af tveimur ungum mönnum sem sátu í kyrrstæðri bifreið. Viðurkenndu mennirnir að hafa verið að nota fíkniefni og fundust hjá þeim efni sem annar þeirra kvaðst eiga og er hann jafnframt grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna. 

mbl.is