Dró fram hníf í deilunum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út um ellefuleytið í gærkvöldi vegna hóps manna sem greindi á í Austurbænum, en þegar líða tók á deilurnar hafði einn mannanna dregið fram hníf. 

Lögregla lagði hald á hnífinn og bíður sá sem með hnífinn var nú ákvörðunar ákærusviðs lögreglu varðandi framhald málsins.

Nóttin var að öðru leyti róleg að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og komu ekki nema 20 mál inn á hennar borð þessa nóttina.

Einn var þó handtekinn á öðrum tímanum í nótt vegna gruns um líkamsárás í miðborginni. Var hann undir talsverðum áhrifum fíkniefna og fékk því að sofa úr sér í fangaklefa, en verður yfirheyrður síðar í dag.

mbl.is