Hafi neikvæð áhrif á kvikmyndagerð

Úr sjónvarpsþáttunum Game of Thrones sem teknir voru að hluta …
Úr sjónvarpsþáttunum Game of Thrones sem teknir voru að hluta hér á landi. mbl.is

Samtök iðnaðarins og Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda leggjast alfarið gegn fyrirhuguðu frumvarpi stjórnvalda til breytingar á lögum um endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Þetta kemur fram í umsögn sem send hefur verið til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Fram kemur í fréttatilkynningu að SÍ og SÍK telji ótímabært að ráðast í nokkrar breytingar á lögunum í ljósi þess að framtíðarstefna kvikmyndagreinarinnar sé nú í mótun hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og að heildarmat á áhrifum fyrirhugaðra breytinga liggi ekki fyrir. Þær tillögur sem komi fram í áformunum gangi í berhögg við upprunalegan tilgang laganna og séu í mótsögn við áherslur ríkisstjórnarinnar.

Tekjur ríkissjóðs hærri en kostnaðurinn

Vitnað er til umsagnar KPMG og VÍK lögmannsstofu þess efnis að allar takmarkanir og/eða þak á endurgreiðslur muni fyrst og fremst leiða til lægri tekna ríkissjóðs. Tekjur ríkissjóðs hafi ávallt verið hærri en kostnaður hans af endurgreiðslukerfinu. Ljóst sé því að sparnaður ríkissjóðs verði enginn vegna hinna fyrirhuguðu breytinga.

Þess megi enn fremur vænta að kvikmyndaiðnaðurinn dragist saman og virðisauki og tekjuskattur minnki verði frumvarpið að veruleika. Þá muni fjöldi erlendra kvikmyndagerðarmanna og ferðamanna minnka og ábati ríkisins muni því líklega dragast verulega saman. Mikilvægt sé að ekkert sé aðhafst sem gæti stefnt þeim árangri sem náðst hefði með endurgreiðslukerfinu í hættu.

mbl.is