Keypti heimsmeistarann óséðan gegnum síma

Jóhann Skúlason og Finnbogi frá Minni-Reykjum.
Jóhann Skúlason og Finnbogi frá Minni-Reykjum. Ljósmynd/LH

„Þú gætir ekki hitt betur á mig. Ég sit og horfi á sjónvarpið og borða íslenskan harðfisk,“ segir Jóhann Rúnar Skúlason sem vann til þrennra gullverðlauna á heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem lauk nýverið í Berlín í Þýskalandi. Hann stóð efstur í tölti, fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum á hestinum Finnboga frá Minni-Reykjum. Auk þess hlaut Jóhann hina eftirsóttu FEIF fjöður fyrir framúrskarandi reiðmennsku sem hann deildi með þýskum knapa.

Jóhann býr í Danmörku ásamt konu sinni Stine Larsen og börnum á hestabúgarðinum Slippen. 

Jóhann Skúlason og fjölskylda hans.
Jóhann Skúlason og fjölskylda hans. Ljósmynd/Aðsend

„Það eru margir þættir sem þurfa að spila saman til að ná þessum árangri og er hægara sagt en gert. Það þarf að toppa á réttum tíma,“ segir Jóhann um afrekið. Allmörg ár eru liðin frá því sami knapi og hestur náðu sama árangri en það gerðist síðast fyrir 24 árum eða árið 1995.   

Úrslit í bæði tölti og fjórgangi voru riðin sama dag og byrjaði Jóhann á því að landa sigri í tölti.  Nokkrum klukkutímum seinna var fjórgangur á dagskrá og Jóhann ætlaði sér líka stóra hluti þar. „Ég var verulega slakur fyrir úrslitin. Ég hugsaði að ég hefði engu að tapa. Ég var með gott fólk í kringum mig að peppa mig upp og var farinn að gæla við að þetta væri raunhæfur möguleiki,“ segir Jóhann um undirbúninginn fyrir úrslit í fjórgangi.  

„Finnbogi er algjör draumahestur. Hann er einfaldur, meðfærilegur og með ofboðslega skemmtilegt gagnlag. Hann leitast við að gera það fyrir mann sem hann er beðinn um. Það erfiðasta við hann er kannski liturinn en mér finnst hann fallegur og ég er mjög ánægður með hann,“ segir Jóhann um Finnboga sem er grár að lit og nánast hvítur allan bolinn. Það þarf því talsverða vinnu að halda honum skjannahvítum og ætla má aðstoðarfólk hans taki líka stóran þátt í því líka. 

Gott símtal frá góðum vin

Það má segja að Jóhann hafi dottið í lukkupottinn þegar hann keypti Finnboga á sínum tíma. „Ég fékk símtal frá vini mínum Agli sumarið 2010. Hann sagði mér að honum hefði fæðst fallegasta folald sem hann hefði séð og bauð mér að kaupa það af sér. Ég tók hann á orðinu og sagði honum að ég kæmi í Laufskálaréttir um haustið og skyldi skoða hann þá. Ég bað hann að halda honum frá fyrir mig. Ég fór svo og skoðaði hann og keypti um leið og ég sá hann,“ sagði Jóhann. 

Egill þessi er Þórarinsson og ræktar hross á Minni-Reykjum í Fljótunum í Skagafirði. Þeir eru æskuvinir því Jóhann ólst upp í Skagafirði. Finnbogi var fluttur úr landi til Danmerkur árið 2014 þá fjögurra vetra gamall. 

Sjöfaldur heimsmeistari í tölti

Jóhann hefur unnið til 19 gullverðlauna á Heimsmeistaramótum þar af 13 í hringvallargreinum og sex sinnum verið með kynbótahross í efsta sæti í sínum flokk. Hann hefur orðið sjö sinnum heimsmeistari í tölti á fimm hestum það eru þeir Fengur frá Íbishóli, Snarpur frá Kjartansstöðum, Hvinur frá Holtsmúla, Hnokki frá Fellskoti og nú Finnbogi frá Minni-Reykjum.

Umgjörðin var flott á vellinum í Berlín.
Umgjörðin var flott á vellinum í Berlín. ljósmynd/LH

Spurður hvaða hestar standi upp úr segir hann, að öðrum ólöstuðum, að þrír þeirra búi yfir mýksta töltlaginu en það eru þeir Finnbogi, Fengur og Hvinur. „Finnbogi er kannski fallegastur af þeim. Hann er stórstígur og stækkar mikið undir manni eins og hinir gerðu líka,“ segir Jóhann.  

Heppni að ekki kviknaði í húsinu

Áður en blaðamaður sleppir Jóhanni úr símanum í Danmörku er hann spurður hvað sé næst á dagskrá svarar hann því til að mesta vinnan núna sé að laga rafmagnið í íbúðarhúsinu sem sé ónýtt. „Það má eiginlega segja að við séum heppin að húsið hafi ekki brunnið á meðan við vorum í Berlín,” segir Jóhann. Mikið þrumu- og eldingaveður gerði í Danmörku í kringum 6. ágúst og eldingu laust niður í íbúðarhús þeirra á búgarðinum með þeim afleiðingum að allar rafmagnslagnir skemmdust sem og öll rafmagnstæki í húsinu nema sjónvarpið.

„Rafvirki vann hjá okkur í sumar að leggja nýtt rafmagn í húsið. Kannski hefði farið verr ef við hefðum ekki verið búin að því,“ segir Jóhann. Hann viðurkennir að auðveldara sé að takast á við þessi hversdagslegu leiðindi núna, enn í sigurvímu eftir afrekið. 

Jóhann og Finnbogi mæta til leiks á ný á næsta heimsmeistaramót sem fram fer í nágrenni þeirra, Herning í Danmörku eftir tvö ár og verja titil sinn. Það verður gaman að sjá hvort þeir endurtaki leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert