Leit í Þingvallavatni lokið í bili

Frá leit björgunarsveitanna á laugardag. Leitin sem hófst aftur í …
Frá leit björgunarsveitanna á laugardag. Leitin sem hófst aftur í dag hefur engan árangur borið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leit í Þingvallavatni er lokið í dag en hún heldur áfram á morgun, að sögn Gunnars Inga Friðrikssonar, formanns svæðisstjórna björgunarsveita. Leitað er að belg­ísk­um ferðamanni á fimm­tugs­aldri sem lík­leg­ast féll í Þing­valla­vatn á laugardag. 

Kafarar á vegum björgunarsveitanna voru að störfum í dag. „Þeir byrjuðu eldsnemma að kafa í morgun og seinni partinn fórum við og gengum fjörur og sigldum með bökkum og reyndum að finna eitthvað. Það gekk allt hnökralaust fyrir sig en við fundum náttúrulega ekki neitt,“ segir Gunnar. 

Kafa áfram á morgun

Aðstæður voru góðar í dag, en hlé hafði verið gert á leit síðan á sunnudag vegna slæmra aðstæðna. „Vatnið er bara nánast slétt og skyggnið í vatninu er búið að vera sæmilega gott,“ segir Gunnar. 

Um framhaldið segir Gunnar: „Það verður áfram kafað á morgun, svo verður staðan tekin á því hvað verður gert næst.“

Sveinn Kr. Rúnarsson, yf­ir­lög­regluþjónn á Suður­landi, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að leitin væri erfið þar sem um stórt vatn væri að ræða og óvíst hvar maðurinn hefði fallið. 

„Þetta er svo­lítið sér­stök leit upp á það að það er ekki vitað ná­kvæm­lega hvar maður­inn fer ofan í og vatnið er nátt­úru­lega 85 fer­kíló­metr­ar. Leit­ar­svæðið er þannig að það að senda kafara út er eins og að opna glugg­ann bara og kíkja út,“ sagði Sveinn. 

mbl.is