Palestína skoðuð í gegnum fótboltann

„Við vildum beina augum fólks að lífinu í Palestínu en með nýju sjónarhorni,“ segir argentínski kvikmyndagerðarmaðurinn Cristian Pirovano um nálgunina í myndinni ¡Yallah! ¡Yallah! þar sem palestínskir knattspyrnuiðkendur eru í forgrunni.

Pirovano er hér á landi í tengslum við sýningu myndarinnar í Bíó Paradís í kvöld. Þar verður aðgangur gjaldfrjáls en það er félagið Ísland-Palestína sem stendur fyrir viðburðinum og fékk Pirovano til landsins sem er annar tveggja leikstjóra myndarinnar.

Í myndskeiðinu er rætt við hann um myndina og Palestínu en hann kom þangað fyrst árið 2012 og hefur dvalið þar langdvölum síðan, bæði í tengslum við myndina en einnig vegna ljósmyndabókar sem hann vinnur að núna.

Lífið í Palestínu segir hann geta verið afar erfitt, það sem flestir líta á sem sjálfsagða hluti, eins og stutt ferðalög lúti öðrum lögmálum þar. Ósjaldan hafi hann komist í aðstæður við gerð myndarinnar þar sem hann óttaðist um öryggi sitt.

mbl.is