Rannsaka matarsóun heimila og fyrirtækja

Um 1.000 heimili og 700-800 fyrirtæki beðin um að taka …
Um 1.000 heimili og 700-800 fyrirtæki beðin um að taka þátt í rannsókninni og verða þátttakendur beðnir um að vigta þann mat og matarúrganga sem fara til spillis. mbl.is/Golli

Matarsóun hefur verið mikið í umræðunni undanfarin misseri í tengslum við aukna umhverfisvitund. Umhverfisstofnun er nú að hrinda af stað ítarlegri rannsókn á umfangi matarsóunar á Íslandi árið 2019. Verður í næstu viku byrjað að hringja út til ríflega 1.000 heimila sem lenda í slembiúrtaki og verður heimilisfólk beðið um að taka þátt í rannsókninni.

„Fólk talar um það hér og það er líka mín tilfinning að það hafi átt sér stað vitundarvakning varðandi matarsóun,“ segir Margrét Einarsdóttir, umsjónarmaður rannsóknarinnar og sérfræðingur á sviði loftlagsmála og græns samfélags hjá Umhverfisstofnun. „Það hefur verið mikil umræða sl. 1-2 árin um loftslagsmálin og hvernig okkar mikla neysla hér á Vesturlöndum er að hafa áhrif á umhverfið.“ 

Að sögn Margrétar verða um 1.000 heimili og 700-800 fyrirtæki beðin um að taka þátt í rannsókninni og verða þátttakendur beðnir um að vigta þann mat og matarúrganga sem fara til spillis.

Árið 2016 sóaði hver Íslendingur 23 kg af ætilegum mat.
Árið 2016 sóaði hver Íslendingur 23 kg af ætilegum mat. mbl.is/Árni

Sóuðu 23 kg af ætilegum mat 

Margrét segir ekki flókið að taka þátt. „Við erum með rafræna skráningagátt, en getum svo líka sent dagbók á pappírsformi á þá sem það vilja.“ Umhverfisstofnun mælir svo með að fólk sé með eitt ílát fyrir matarafanga í eldhúsinu og annað fyrir matarúrganga og mæli svo magnið sem þar safnast eftir daginn og skrái niður.

Umhverfisstofnun lét gera sambærilega rannsókn vorið 2016. Margrét segir viðhorf fólks þá almennt hafa verið jákvætt til verkefnisins. „Það var hins vegar brestur á að fólk tæki sig til og skráði og tæki saman þessa matarsóun og sendi okkur upplýsingarnar, þannig að það hefði mátt vera betri þátttaka,“ segir hún.

Samkvæmt þeirri rannsókn sóaði hver Íslendingur um 23 kg af ætilegum mat. 39 kg af því sem var flokkaðist sem matarúrgangar fór í ruslið, 22 kg af matarolíu og fitu var helt niður og tæpum 200 lítrum af drykkjarvökva.

„Við miðuðum okkar aðferð við finnska rannsókn og þar voru niðurstöður svipaðar,“ segir Margrét og bætir við að enn sé verið að þróa aðferðir og því geti samanburður milli landa verið vandasamur.

„Hvað þessa rannsókn varðar getum við hins vegar nokkuð gefið okkur að þetta sé vanmat frekar en ofmat.“

Hún útskýrir að fólk sé frekar að gleyma að vigta, eða sleppi því að taka þátt og eins vanti inn árlega sveiflu í matarsóun heimila tengdum hátíðarhöldum.

„Það má alveg gefa sér að fólk hendi mat eftir veisluhöld,“ segir Margrét og kveður einnig grun um vanmat varðandi matarsóun tengda tiltekt í ísskápnum og öðrum eldhússkápum.

Sömu aðferðafræði er beitt við rannsóknina nú og segir hún áhugavert verða að sjá hvort að niðurstöðurnar nú sýni að aukin vitund um matarsóun feli í sér að fólk sé að draga úr neyslu sinni.

Matarsóunarrannsóknin er gerð með styrk frá Evrópsku hagstofunni (EUROSTAT og er tilgangurinn að afla hagtalna um umfang matarsóunar á Íslandi.

mbl.is