Rigning á landinu norðvestanverðu

Veðurútlit á hádegi í dag, miðvikudag.
Veðurútlit á hádegi í dag, miðvikudag.

Norðanátt 8-13 m/s verður vestast á landinu í dag, en annars hægari. Það bætir þó heldur í vindinn síðdegis. Rigning verður á landinu norðvestanverðu, einkum á Ströndum. Suðvestanlands verður hins vegar víða bjart, en annars úrkomulítið. Á Norðausturlandi mun svo fara að rigna síðdegis, en búast má við síðdegisskúrum sunnanlands einkum í Landeyjum, á Mýrdalssandi og Öræfum.

Áframhaldandi rigning verður um norðanvert landið á morgun og síðdegisskúrir sunnanlands. Hiti verður á bilinu 7 til 15 stig, hlýjast sunnanlands.

Almennt verður norðaustlæg átt í kortunum næstu daga með viðloðandi vætu fyrir norðan en björtu veðri syðra. 

Norðaustanáttin verður síðan ákveðnari í lok vikunnar og fylgir henni svalara loft um helgina, en þá mun jafnframt líka draga úr vætunni.

Veðrið á mbl.is

mbl.is