„Stærsta heimsókn sem ég hef fengið“

Zara ásamt móður sinni við Akranesvita í morgun.
Zara ásamt móður sinni við Akranesvita í morgun. Ljósmynd/Akranesviti

Skagamanninum Hilmari Sigvaldasyni brá í brún þegar hann frétti að hann hefði rétt verið að kveðja söngkonu sem hitað hefði upp fyrir Ed Sheeran á Laugardalsvelli og væri með 6 milljón fylgjendur á Instagram, eftir heimsókn hennar í Akranesvita í dag.

Það var jú hin sænska Zara Larsson sem sótti vitann heim ásamt móður sinni og íslenskum leiðsögumanni í morgun.

Hilmar segir í samtali við mbl.is að hann hafi fengið tölvupóst þess efnis að von væri á efnilegri erlendri söngkonu í heimsókn í vitann. Himari þótti söngkonan einkar látlaus og almennileg. Hún hafi verið hrifin af hljómburðinum í vitanum og tekið lagið þar inni.

„Hún söng eins og engill,“ segir Hilmar og kveðst hafa boðið henni aðstöðu til að taka upp í vitanum. „Ég var alveg grænn og vissi ekkert hver þetta var.“

Ung stúlka sem starfar við endurgerð stakkstæðanna utan við vitann hafi síðan gert honum grein fyrir því hver unga söngkonan væri, eftir að hún var farin. „Þetta er stærsta heimsókn sem ég hef nokkurn tímann fengið. Ég hélt ég ætti þetta aldrei eftir að fá svona stórstjörnu í heimsókn, og sérstaklega án þess að fatta það“ segir Hilmar.

Larsson tók upp söng sinn í Akranesvita og deildi með fylgjendum sínum á Instagram, sem eins og áður segir eru sex milljónir talsins.

View this post on Instagram

Found a lighthouse in iceland with good acoustics. Enjoy my nostrils

A post shared by Zara Larsson (@zaralarsson) on Aug 14, 2019 at 4:48am PDT

mbl.is