Vatnið getur virst „ósköp saklaust“

Þingvallavatn getur leynt á sér.
Þingvallavatn getur leynt á sér. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúi á Heiðarási í Þingvallasveit segir að eitt af því sem hafa beri í huga þegar siglt er á Þingvallavatni sé að ef sett er á flot þar sem vindur stendur af landi gefi það ekki rétta mynd af öldunni á vatninu. Vatnið leyni á sér og geti blekkt hvern þann sem ekki kynnir sér aðstæður.

Kolbeinn Sveinbjörnsson býr á Heiðarási við Þingvallavatn. Hann segir það óheimilt að sigla á Þingvallavatni án leyfis ábúenda eða landeigenda. Fyrst og fremst séu það landeigendur, ábúendur og sumarhúsaeigendur sem megi vera með báta á vatninu.

„Það er í reglum veiðifélagsins að menn megi ekki koma bara keyrandi og setja á flot án þess að fá leyfi einhvers landeiganda eða ábúanda. Það er ágætlega virkt eftirlit með því innan Þjóðgarðsins en auðvitað eru menn snöggir að gera þetta. Segir fátt af einum, þetta er fljótt að gerast,“ segir Kolbeinn. 

Kolbeinn Sveinbjörnsson íbúi á Heiðarási.
Kolbeinn Sveinbjörnsson íbúi á Heiðarási. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Norðanátt hefur verið við Þingvallavatn líkt og víðar á Suðurlandi síðustu daga. Á laugardag fundust mannlaus kajak og bakpoki á floti á sunnanverðu vatninu við Villingavatn. Hefur erlends ferðamanns verið leitað síðan, en yfirgnæfandi líkur eru á því að maðurinn hafi fallið útbyrðis. 

Kolbeinn segir það geta verið hættulegt að setja bát á flot þar sem vindurinn stendur af landi. Þá sé aldan lítil við landið en versni eftir því sem utar dregur. Kolbeinn segist vel geta trúað því að ferðamaðurinn hafi siglt út norðanmegin við vatnið í ljósi vindáttar síðustu daga. Hann segist þó ekki vilja fullyrða neitt. 

„Eins og aðstæður voru á laugardaginn er töluverð norðanátt og þá virkar þetta ósköp saklaust upp við landið að norðanverðu, það er ekki komin nein alda af stað. Síðan eftir því sem þú færist fjær landi þá eykst hún,“ segir Kolbeinn. 

„Ég veit náttúrulega ekki hvað kom fyrir þennan blessaða mann en þetta eru hættulegar aðstæður að fara út á vatn skjólmegin og missa svo tökin á hlutunum. Það var það fyrsta sem manni datt í hug.“

Vatnið leynir á sér 

Kolbeinn segir Þingvallavatn vera bæði kalt og djúpt. 

„Dýpið svo sem skiptir ekki öllu máli þegar það er komið niður fyrir tvo metra. Í þessum slysum sem hafa orðið, fólk getur fengið bara krampa og örmagnast. En á meðan það er ekki búið að finna þennan mann lífs eða liðinn […]. Menn svona miða ekki við það að lifa ef þeir detta í vatnið. En ef menn eru í vestum eða einhverju floti er alltaf möguleiki á að þeir finnist,“ segir Kolbeinn. 

Ferðamannsins leitað á Þingvallavatni á laugardag.
Ferðamannsins leitað á Þingvallavatni á laugardag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolbeinn segir það ekki þurfa að vera þannig að íbúar og landeigendur við Þingvallavatn sjái í öllum tilfellum þegar bátar eru á vatninu, jafnvel þótt þú rýnir vel.

 „Svona litlir bátar geta bara horfið sjónum, sérstaklega í svona öldum. Það er mjög auðvelt að fara fram hjá mörgum og náttúrulega misjafnt skyggni. Það er öðruvísi ef vatnið er spegilslétt og einhver lítill bátur á ferðinni, þá sér maður það frekar. Þegar það er svona alda er það hæpnara,“ segir Kolbeinn.

Kolbeinn segir hættuna við Þingvallavatn vera að vatnið leyni á sér. Við ákveðnar aðstæður kunni allt að virðast öruggt þangað til komið er út á vatnið. Maður gæti áttað sig á aðstæðum á vatninu þegar maður væri þá þegar kominn í hann krappan. 

„Stóra málið er kannski helst að ef það er norðanátt og þú norðanmegin við vatnið, er engin alda uppi við landið. Eins ef þú ert sunnanmegin og það er sunnanátt og svo framvegis. Hún er bara rétt að byrja og svo margfaldast hún eftir því sem þú ferð utar. Öldurnar á Þingvallavatni geta vel verið stórar og þær eru krappar. Fólk þarf að kynna sér þetta mjög vel.“

mbl.is