Vill klára stefnurnar áður en Már fer

Höfnun bankans á viðræðum kom Þorsteini í opna skjöldu enda …
Höfnun bankans á viðræðum kom Þorsteini í opna skjöldu enda er sú niðurstaða, að hans sögn, hvorki í samræmi við niðurstöðu bankaráðs né umboðsmanns Alþingis. mbl.is/​Hari

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, ætlar að stefna Seðlabanka Íslands, bæði fyrir sína eigin hönd og fyrir hönd Samherja í kjölfar þess að Seðlabankinn hafnaði kröfu Þorsteins um viðræður um bætur vegna málareksturs Seðlabankans gegn Samherja. RÚV greindi fyrst frá en Þorsteinn staðfesti áætlun sína í samtali við mbl.is. 

Þorsteinn krafðist þess að Seðlabankinn greiddi honum fimm milljónir króna í bætur vegna kostnaðar sem féll á hann í málarekstri bankans. Tel­ur bank­inn að málsmeðferðin hafi ekki brotið gegn rétt­ind­um Þor­steins þannig að það varði bóta­skyldu. 

Þorsteinn segir í samtali við mbl.is að stefnurnar verði birtar á morgun og á föstudag. „Við viljum að sjálfsögðu klára þessa stefnu áður en Már Guðmundsson [fráfarandi Seðlabankastjóri] fer, eðlilega, vegna þess að við höfum engan áhuga á að birta nýjum Seðlabankastjóra þessa stefnu. Már er búinn að draga það mjög að svara þessu og Seðlabankinn líka. Við munum klára þessi mál á morgun og á föstudaginn og birta honum þessar stefnur.“

Þorsteinn segir að stefnurnar hafi verið eðlilegt framhald af höfnun bankans á viðræðum. 

„Niðurstaða bankaráðs var skýr í skýrslu til forsætisráðherra, að það hafi verið brotin lög á Samherja og mörgum öðrum og niðurstoða umboðsmanns Alþingis var einnig skýr, að það hefðu verið brotin lög á mér,“ segir Þorsteinn.

Samræmist ekki skýrslum um málið

„Þessi niðurstaða sem Steinar Þór, lögmaður Seðlabankans, birtir er hvorki í samræmi við skýrslu bankaráðs né skýrslu umboðsmanns Alþingis,“ bætir Þorsteinn við

Höfnun bankans á viðræðum um bætur kom Þorsteini í opna skjöldu. „Að sjálfsögðu kemur það á óvart vegna þess að niðurstaða bankaráðs og umboðsmanns Alþingis er afdráttarlaus í þessu máli. Það er alla vega eðlilegt að menn tali saman og við buðum upp á viðræður um þetta mál en bankinn hafnaði því. Þessi niðurstaða er ekki í samræmi við niðurstöðu bankaráðs og niðurstöðu umboðsmanns Alþingis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert