Boða breytingar í skugga rekstrarhalla

Nú stendur yfir fundur um umfangsmiklar breytingar í starfsemi Landspítala, …
Nú stendur yfir fundur um umfangsmiklar breytingar í starfsemi Landspítala, en heimildir mbl.is herma að stefnt hafi í fimm milljarða rekstrarhalla. mbl.is/Hjörtur

Fundur stendur nú yfir þar sem stjórnendur Landspítalans kynna umfangsmiklar skipulagsbreytingar. Er fundurinn haldinn í skugga verulegs rekstrarhalla spítalans, en heimildir mbl.is herma að hálfsársuppgjör spítalans hafi sýnt, að að óbreyttu hafi stefnt í um fimm milljarða halla á árinu eða því sem nemur um 7,8%.

Var fjárlaganefnd Alþingis upplýst um að stefndi í verulegan halla í vor eftir að nefndinni var kynnt þriggja mánaða uppgjör spítalans.

Í morgun funduðu stjórnendur spítalans með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins vegna málsins og kynntu þeir fyrirhugaðar aðgerðir. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, boðaði í síðustu viku breytt skipulag á starfsemi spítalans og breytt stjórnunarfyrirkomulag auk hagræðingar í stjórnunarþáttum, í forstjórapistli á vef spítalans.

Mbl.is hefur ítrekað reynt að fá umrædda upphæð staðfesta af forsvarsmönnum spítalans frá því í síðasta mánuði, en einungis hafa fengist þau svör að um „umtalsverðan“ halla sé að ræða.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vildi ekki tjá sig um málið þegar mbl.is leitaði eftir viðbrögðum hennar í dag. Jafnframt náðist ekki í Willum Þór Þórsson, formann fjárlaganefndar Alþingis.

Ljóst í hvað stefndi í vor

Haraldur Benediktsson, varaformaður fjárlaganefndar, sagðist í samtali við mbl.is ekki hafa séð hálfsársuppgjör Landspítala en að tölurnar sem mbl.is vísar til komi honum „ekki á óvart“. Þá hafi verið ljóst þegar fjárlaganefnd var kynnt þriggja mánaða uppgjör spítalans að stefndi í „verulegan hallarekstur“ á árinu.

„Þegar við vorum í fjármálaáætlunarvinnunni kom heilbrigðisráðuneytið til okkar og þá vorum við upplýst um viðbragðsáætlun heilbrigðisráðuneytisins,“ segir Haraldur og bendir á að samkvæmt nýju fjárreiðulögunum sé á ábyrgð ráðuneytisins að eiga frumkvæði og bregðast við, ásamt því að upplýsa fjárlaganefnd um aðgerðir til úrbóta.

„Við fengum minnisblað um aðgerðir sem hafa verið ræddar við Landspítalann eftir þriggja mánaða uppgjörið. Þá fengum við upplýsingar um verulegan hallarekstur – í hvað stefndi – þannig að það kemur ekki á óvart,“ útskýrir þingmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert