Gæti setið uppi með Svarta Pétur

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi. mbl.is/Árni Sæberg

„Það kann að vera að forysta Framsóknarflokksins sjái nú að þau geti á aðgengilegan máta skapað sér sérstöðu og orðið stjórnarflokkurinn sem rís upp.“

Þetta segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, á vefsíðu sinni í dag þar sem hann gerir að umtalsefni sínu aðsenda grein í Morgunblaðinu í dag eftir Jón Björn Hákonarson, forseta bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og ritara Framsóknarflokksins, þar sem lögð er til sú tillaga að óskað verði eftir formlegri umsögn og staðfestingu frá sameiginlegu EES-nefndinni um að þeir fyrirvarar, sem stjórnvöld vilja setja vegna fyrirhugaðrar innleiðingar þriðja orkupakka Evrópusambandsins hér á landi í gegnum EES-samninginn, haldi.

Elliði segir ljóst að Jón Björn hafi ekki ritað greinina án samráðs við annað forystufólk Framsóknarflokksins. Með tillögu Jóns Björns gæti flokkurinn náð til sín aftur hluta þess fylgis sem hann hefði misst til Miðflokksins og jafnvel verulegan hluta þess. Ljóst sé að umtalsverð andstaða sé við málið innan allra stjórnarflokkanna þriggja. Forysta Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs gæti auðveldlega friðað sitt fólk með því að taka undir það sjónarmið sem Jón Björn setji fram í grein sinni.

„Það er enda í fullkomnu samræmi við þann rétt sem við sannarlega höfum skv. EES samningnum. Ekki þarf að efast um að á vinstri vængnum myndu margir fagna því að eignast málssvara í þessu umdeilda máli,“ segir Elliði. Sjálfstæðisflokkurinn hafi helst talað fyrir samþykkt þriðja orkupakkans og segist Elliði telja að það hafi hann ekki gert af einlægri sannfæringu heldur frekar til þess að axla ábyrgð í stjórnarsamstarfi.

„Það gæti því farið svo að Sjálfstæðisflokkurinn sitji uppi með Svarta Pétur í þessu máli. En er þó ekki of seint að standa upp og taka forystu í málinu í samræmi við það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ætíð gert í utanríkismálum þjóðarinnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert