Grét þegar byrjaði að flæða

Þórður Andersen stendur í stígvélum í flæddri íbúð nágranna síns, …
Þórður Andersen stendur í stígvélum í flæddri íbúð nágranna síns, hvar hann hjálpaði við að dæla vatni út. Ljósmynd/Trölli.is

Þórður Andersen, íbúi í Fjallabyggð, segist hreinlega hafa grátið þegar byrjaði að flæða inn í kjallara hans á mánudaginn. Hann er einn íbúa í Fjallabyggð sem eru að ná sér eftir að inn í hús flæddi í kjölfar mikilla rigninga sem stóðu yfir vikuna á undan.

Margir eru ósáttir vegna viðbragða sveitarfélagsins, en síðustu misseri hefur verið staðið að endurbótum á holræsakerfi beggja byggðakjarna, þ.e. Siglufjarðar og Ólafsfjarðar.

Átti ekki að gerast aftur

„Fólk er náttúrulega miður sín. Það var búið að segja fólki eftir að þetta gerðist síðast að með þessu endurbætta lagnakerfi myndi þetta ekki gerast aftur. Og fólk er mjög ósátt við að sveitarfélagið segi bara að þetta hefði orðið mun verra ef ekki hefði verið fyrir endurbæturnar,“ segir Gunnar Smári Helgason, íbúi á Siglufirði og fréttamaður hjá Trölla.is, í samtali við Morgunblaðið.

Margir þar nyrðra minnast vatnsveðursins sem gekk yfir í ágúst 2015 og olli miklu tjóni í bænum. Spurður út í endurbæturnar sem gerðar hafa verið síðan sagði Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, í samtali við mbl.is í fyrradag að ef framangreindar endurbætur hefðu ekki verið framkvæmdar hefðu afleiðingarnar orðið mun verri en raunin varð.

„Það eru rosaleg vonbrigði að nýja kerfið skuli ekki halda betur en þetta. [Það er] óviðunandi að maður megi búast við að það flæði inn,“ segir Hálfdán Sveinsson, hóteleigandi og einn íbúa á Siglufirði sem eiga rými sem flæddi inn í, í samtali við Morgunblaðið.

„Síðan ég keypti hefur flætt inn hjá mér á tveggja ára fresti. 2015, 2017 og núna 2019,“ segir Hálfdán.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »