Íslendingurinn laus úr haldi í Stafangri

Flugvélin var á leiðinni frá Búdapest til Keflavíkur í morgun …
Flugvélin var á leiðinni frá Búdapest til Keflavíkur í morgun er maðurinn reyndi að brjóta sér leið inn í flugstjórnarklefa hennar.

Íslendingur á sjötugsaldri sem handtekinn var fyrir óspektir í flugvél Wizz Air í morgun var látinn laus úr haldi lögreglunnar í Stafangri í kvöld, að yfirheyrslum loknum. Þetta staðfestir Anne Mette Dale, lögmaður lögreglunnar í Stafangri í samtali við mbl.is, en RÚV greindi fyrst frá.

Dale segir að maðurinn hafi fallist á að mæta aftur til lögreglu á morgun til frekari yfirheyrslu, en að því loknu sé honum frjálst að halda aftur til Íslands, ef hann vill.

Hún segir of snemmt að segja til um það hvort að maðurinn muni sæta ákæru í Noregi vegna hegðunar sinnar. Mögulega fari svo að svo verði ekki, þar sem hegðunina megi rekja til veikinda mannsins.

„Hann hefur gefið sínar skýringar og verið samvinnuþýður við lögreglu,“ segir Dale, en maðurinn segir að hann muni ekkert eftir atvikinu.

Flugvélin var á leiðinni frá Búdapest til Keflavíkur í morgun er maðurinn reyndi að brjóta sér leið inn í flugstjórnarklefa hennar. Vélinni var snúið við yfir Norðursjó og stefnt inn til Sola-flugvallar í Stafangri þar sem maðurinn var handtekinn og færður frá borði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert