Kjöt af nýslátruðu frá KS kom í Bónusbúðirnar í gær

Búið er að lóga fyrstu lömbum haustsins.
Búið er að lóga fyrstu lömbum haustsins. mbl.is/RAX

Sauðfjárslátrun hófst á Hvammstanga á föstudaginn var, 9. ágúst, og var þá slátrað 411 lömbum. Meðalvigtin var 15,1 kíló sem þykir mjög gott miðað við hve snemma var slátrað, að sögn Ágústs Andréssonar, forstöðumanns Kjötafurðastöðvar KS.

Aftur verður slátrað í dag á Hvammstanga. Ágúst sagði að stefnt hefði verið að því að slátra 1.200 lömbum í dag en líklega yrðu þau ekki nema 600. Í kvöld verður því búið að slátra rúmlega eitt þúsund lömbum í þessari sláturtíð.

„Bændur eru frekar tregir til að senda fé til slátrunar og það lítur ekkert of vel út með næstu viku en þá var ætlunin að slátra í þrjá daga,“ sagði Ágúst. Hann taldi líklegast að bændum fyndist ekki borga sig að slátra lömbunum svo snemma. Þeir vilji heldur bíða og leyfa lömbunum að þyngjast enn meira, að því er  fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Kjötinu af nýslátruðu lömbunum úr fyrstu slátruninni var dreift í verslanir Bónus í gær. Ekki varð því skortur á lambakjöti eins og útlit var fyrir á tímabili þegar ekki var hægt að fá afgreidda hryggi í heilu. Eins og kunnugt er rættist úr því án þess að til innflutnings kæmi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert