Finnur vel samhug Hvergerðinga

Mæðginin Elva Óskarsdóttir og Mikael Rúnar.
Mæðginin Elva Óskarsdóttir og Mikael Rúnar. Ljósmynd/Aðsend

„Okkur langar að láta gott af okkur leiða í hans nafni. Við viljum meðal annars styðja foreldra sem hafa misst barn sviplega eins og við,” segir Þorbjörg Elva Óskarsdóttir sem hleypur í Reykjavíkurmaraþoninu í minningu sonar síns Mikaels Rúnars sem lést af slysförum 1. apríl 2017 aðeins 11 ára gamall. 

Í vor var stofnaður Minningarsjóður Mikaels Rúnars. Elva, eins og hún er oftast kölluð, segir að þau langi einnig til að styðja við skóla- og íþróttastarf barna og ungmenna í sveitarfélaginu auk annarra góðra verka. Fjölskyldan er búsett í Hveragerði. „Það er gott að búa í litlu bæjarfélagi þegar maður lendir í svona áfalli og alveg ómetanlegt að finna samhuginn hjá öllum. Það hefur verið fáránlega erfitt að takast á við þetta,“ segir Elva.

Hlaupahópurinn sem tók þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra í nafni …
Hlaupahópurinn sem tók þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra í nafni Mikaels Rúnars. Ljósmynd/Aðsend

Í fyrra hljóp hún einnig í Reykjavíkurmaraþoninu í minningu Mikaels Rúnars þá til styrktar Birtu - landssamtökum foreldra/forráðamann sem misst hafa börn/ungmenni skyndilega. Hún og fjölmargir aðrir hlupu í minningu Mikaels Rúnars íklæddir appelsínugulum bolum og söfnuðu um tveimur milljónum króna. 

„Það var byrjunin. Að hafa nóg að gera og dreifa huganum hefur hjálpað okkur í sorgarferlinu,“ segir Elva og rifjar upp hlaupið í fyrra. Hún segir aðra tilfinningu fylgja því að hlaupa í nafni sonar síns. „Hann var voðalega mikið að skottast með okkur og tók sjálfur mikinn þátt í öllu, fór með okkur í hlaupaferðir. Hann var svo gjafmildur og alltaf boðinn og búinn að hjálpa öllum og því er fallegt að láta gott af sér leiða í hans nafni,” segir hún. 

Rúmlega 80 hlauparar ætla að hlaupa í minningu Mikaels Rúnars 24. ágúst næstkomandi. Þeir eru allir í misjöfnu formi og sumir hafa jafnvel aldrei hlaupið áður en það er aukaatriði, segir Elva og brosir. Fjölmennur hlaupahópur kemur reglulega saman á hlaupaæfingum í Hveragerði til að hrista hópinn saman og ekki síður að styðja foreldra og fjölskyldu Mikaels Rúnars með samveru og hreyfingu. Elva og maðurinn hennar Jón Gísli Guðlaugsson eru hlaupagarpar og hafa verið í hlaupahóp um árabil. 

Samstarfsfélagi Elvu tók sig til og bjó til snjallforrit eingöngu fyrir þennan hlaupahóp en markmiðið var að ná að hlaupa hringinn í kringum landið í kílómetrum talið. „Við erum komin vel á annan hring,“ segir Elva. Í forritinu eru auk þess hlaupaleiðir, ráðleggingar og skráning á vegalengdum sem hver og einn hleypur. 

Feðgarnir Mikael Rúnar og Jón Gísli Guðlaugsson saman á góðri …
Feðgarnir Mikael Rúnar og Jón Gísli Guðlaugsson saman á góðri stundi í Litahlaupinu. Ljósmynd/Aðsend

„Í fyrra ákvað ég að hlaupa og njóta. Ég stoppaði hjá öllum appelsínugulum bolum og lengi á hvatningastöðinni og fannst það æðislegt,” segir Elva sem ætlar að gera einmitt það sama í ár og er hún full tilhlökkunar.  

Þeir sem vilja styrkja Minningarsjóð Mikaels Rúnars geta gert það hér.

Hlaupahópurinn saman á góðri stund.
Hlaupahópurinn saman á góðri stund. Ljósmynd/Aðsend
Foreldrarnir Elva og Jón Gísli með tveimur af fjórum dætrum …
Foreldrarnir Elva og Jón Gísli með tveimur af fjórum dætrum sínum þeim Elínu Hrönn og Hrefnu Ósk þegar þau tóku við viðurkenningu frá Birtu Landssamtökum fyrir það sem þau söfnuðu fyrir samtökin í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra.
Bolirnir sem hópurinn klæddist í fyrra í minningu Mikaels Rúnars.
Bolirnir sem hópurinn klæddist í fyrra í minningu Mikaels Rúnars.
mbl.is