Glussaleki í Hlíðunum

Slökkviliðsmaður að störfum. Mynd úr safni.
Slökkviliðsmaður að störfum. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað í Hlíðahverfi um ellefuleytið í morgun vegna glussaleka. Slanga hafði sprungið í vinnulyftu á horninu á Eskihlíð og Engihlíð með þeim afleiðingum að tankurinn tæmdist yfir um 25-30 m2 svæði.

Slökkviliðsmenn náðu að stöðva lekann er þeir komu á vettvang, en glussinn lenti allur á malbiki. Starfsmenn fyrirtækisins Hreinsitækni komu í kjölfari á staðinn og sáu um að hreinsa upp glussann.

mbl.is