Sóttu sjúkling til Jan Mayen

Áhöfn Mýflugs kom til bjargar á Jan Mayen.
Áhöfn Mýflugs kom til bjargar á Jan Mayen. Ljósmynd/Aðsend

Flugfélagið Mýflug sótti danskan vísindamann til norsku eyjunnar Jan Mayen snemma í morgun. Var maðurinn fluttur hjartveikur til aðhlynningar í Reykjavík. 

„Það var hringt í okkur fyrst frá Landhelgisgæslunni og svo frá björgunarstöðinni í Bodø. Jan Mayen er náttúrulega bara hervöllur og það má engin lenda þarna nema fá til þess sérstakt leyfi.

„Það var maður með hjartatengd vandamál sem þurfti að komast á spítala og sjúkraflugslæknirinn hjá okkur og læknir í Bodø ræddu við hjúkrunarkonu í Jan Mayen og það var ljóst að það þurfti að koma þessum manni undir læknishendur. Svo við fengum bara upplýsingar um veður og fórum af stað,“ segir Leifur Hallgrímsson, flugstjóri hjá Mýflug. 

Bráðatilfelli sem einhver þurfti að sinna

„Við náðum í manninn og hann er nú kominn á spítala í Reykjavík. Ég held að ástæðan fyrir því að hann var ekki sóttur af Norðmönnum sé sú að Jan Mayen er miklu, miklu, miklu lengra frá Noregi en Íslandi. Það kemur herflugvél frá norska hernum þarna átta sinnum á ári. Það er ekki eins og það séu að koma flugvélar þarna á hverjum degi. 

„En þetta var bara bráðatilfelli. Hann veiktist seint í gærkvöldi og þess vegna var haft samband við okkur í nótt.“

Jan Mayen er virk eldfjallaeyja í Norður-Íshafi, um 550 kílómetra norðaustur af Íslandi. Eyjunni er stjórnað af norska fylkinu Nordland. 

Á Jan Mayen er herstöð og veðurstöð. Alla jafna búa 18 manns á eyjunni, um 6 veðurfræðingar og 12 hermenn. Á sumrin fjölgar fólki nokkuð á eyjunni og Leifur segist halda að 34 manns hafi verið á eyjunni í gærnótt. 

Herstöð og veðurstöð eru á Jan Mayen.
Herstöð og veðurstöð eru á Jan Mayen. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is