Stærsta ákvörðun í „sögu íslensks lýðveldis“

Skýrslan var kynnt í Safnahúsinu klukkan 15 í dag.
Skýrslan var kynnt í Safnahúsinu klukkan 15 í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Sérfræðinefnd Orkunnar okkar, skipuð átta sérfræðingum, gaf í dag út skýrslu um „áhrif inngöngu Íslands í Orkusamband Evrópusambandsins“. Er rauði þráðurinn í niðurstöðu skýrslunnar að Alþingi ætti að hafna upptöku 3. orkupakka á þeirri forsendu að upptaka hans í íslensk lög væri „skaðleg fyrir íslenska þjóð, efnahag hennar og náttúru“.

Ritstjórar skýrslunnar eru Jónas Elíasson prófessor, Stefán Arnórsson prófessor og Haraldur Ólafsson, prófessor og veðurfræðingur. 

Þá voru þeir Stefán Arnórsson, Hjörleifur Guttormsson, Bjarni Jónsson, Elías B. Elíasson, Ragnar Árnason, Eyjólfur Ármannsson, Sigurbjörn Svavarsson, Jón Baldvin Hannibalsson og Styrmir Gunnarsson aðalhöfundar að efni einstakra kafla. 

Höfundar skýrslunnar.
Höfundar skýrslunnar.

„Þessi skýrsla er rituð í ljósi þess að Alþingi og íslensk þjóð standa nú frammi fyrir því að taka eina þá stærstu ákvörðun sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir í sögu íslensks lýðveldis og jafnvel mun lengur,“ segir í inngangi skýrslunnar. 

Ákvörðunin tekin með stjórnskipulegum fyrirvara

Eins og flestum er kunnugt hefur orkupakki 3 verið gríðarlega umdeildur og hefur Orkan okkar verið áberandi á meðal andstæðinga upptöku orkupakkans. 

Ákveðið var í sameiginlegu EES-nefndinni árið 2017 að innleiða þriðja orkupakkann í EES-samninginn. EFTA-ríkin þrjú tóku ákvörðun um upptöku þriðja orkupakkans með stjórnskipulegum fyrirvara, en bæði Noregur og Liechtenstein hafa þegar aflétt þeim fyrirvara af sinni hálfu. 

Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tekur þó ekki gildi fyrr en öll EFTA-ríki innan EES hafa aflétt fyrirvaranum, en með tillögu ríkisstjórnar til þingsályktunar á síðasta þingi er óskað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Er það gert með lagalegum fyrirvara um endurskoðun á ákvæðum íslensku reglugerðarinnar áður en komi til álita að reisa grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB, svo sem sæstreng. 

Segja ESB munu þrýsta á sæstreng

Eins og kunnugt er tókst ekki að ná sáttum á Alþingi um þingsályktunartillöguna síðasta vor. Samkvæmt samkomulagi sem gert var í byrjun sumars þegar afgreiðslu málsins var frestað stendur til að afgreiða það á nokkrum þingdögum í kringum næstu mánaðamót. 

Frá kynningarfundi skýrslunnar.
Frá kynningarfundi skýrslunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Í skýrslu sérfræðinefndar Orkunnar okkar er farið um víðan völl, en skýrslan telur 83 blaðsíður. Kaflarnir eru 11 og er meðal annars skrifað um eðli orkulinda, orkustefnu ESB, orkulindir Íslands og viðskipti um sæstreng. 

Í inngangi skýrslunnar segja höfundar hennar að með samþykkt orkupakka 3 ásamt banni við tengingu sæstrengs til Evrópu „gangi Ísland undir yfirþjóðlegt dómsvald ESB og EES í málefnum raforkugeirans ásamt stjórnun og eftirliti með honum“.

„Verði þingsályktunartillagan samþykkt verður bann við tengingu sæstrengs, órökrétt og andstætt markmiðum ESB svo óhjákvæmilega skapast þrýstingur á að leggja hann,“ segir í skýrslunni. 

Segja skaðlegt þjóðinni að taka upp orkupakkann

Skrifa skýrsluhöfundar að ákvæðum orkupakkans gegn samkeppnishindrunum og markaðsmismunun yrði undir þessum kringumstæðum beitt og að sæstrengur frá Íslandi til Evrópu yrði líkleg útkoma. Munu ríki ESB þá hafa aðgang að íslenskum raforkuauðlindum auk þess sem raforkuverð hér á landi mun hækka. 

Er það niðurstaða skýrslunnar að rökrétt sé að Alþingi hafni upptöku 3. orkupakkans á þeirri forsendu að upptaka hans sé skaðleg fyrir íslenska þjóð og stefnirí hættu ríkjandi auðlinda- og umhverfisstefnu. Raforkustefna ESB sé flókin og erfið í framkvæmd og taki ekki mið af náttúru Íslands við stefnumótun sína. 

Þriðji orkupakkinn er umdeilt mál.
Þriðji orkupakkinn er umdeilt mál. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Stendur í regluverki ESB að rekstur orkuvera skuli boðinn út tímabundið til að viðhalda samkeppni. Þetta felur í sér að 360 þúsund Íslendingar standa sífellt í samkeppni við 500 milljónir íbúa í ESB-löndum um byggingu og rekstur raforkuvera á Íslandi. Þetta getur aðeins endað á einn veg. Við munum í tímans rás glata alfarið yfirráðum yfir orkulindum okkar og líka missa af tekjum vegna nýtingar þeirra,“ segir í skýrslunni. 

„ESB er tiltölulega fátækt af orku, sérstaklega umhverfisvænni orku. ESB leitar því leiða til að verða sér úti um slíka orku. Ein af leiðunum til þess er að skapa hindrunarlausan markað fyrir raforku á gervöllu ESB-EES-svæðinu. Þessu marki hyggst ESB ná með svokölluðum orkupökkum.“ 

Hindrunarlaus raforkumarkaður ekki í kortunum 

„Á hindrunarlausum raforkumarkaði fer raforkan til þeirra notenda sem hæst verð bjóða. Hæsta orkuverðið er einkum að finna þar sem iðnvæðing er lengst komin en það er í efnahagslegri þungamiðju ESB. Því er það að verði raforkukerfi Íslands tengt raforkukerfi ESB, eins og að er stefnt með hinum svokölluðu orkupökkum, mun raforka flæða frá Íslandi til ESB þar til raforkuverðið innanlands er orðið jafnt útflutningsverðinu til ESB,“ segir í skýrslunni. 

Frá kynningunni í Safnahúsinu.
Frá kynningunni í Safnahúsinu. Ljósmynd/Aðsend

Ljóst er að rauði þráður skýrslunnar er sá að verði orkupakkinn samþykktur muni ESB krefjast þess eða setja þrýsting á að héðan verði lagður sæstrengur til Evrópu. Þá færist virkjanaframkvæmdir í aukana auk þess sem raforkuverð hækki. Ísland muni ganga í Orkusamband Evrópusambandsins og jafnframt undir yfirþjóðlegt dómsvald ESB. 

Samkvæmt ríkisstjórninni er hindrunarlaus raforkumarkaður þó ekki í kortunum þó svo að þriðji orkupakkinn sé samþykktur. 

Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að þriðji orkupakkinn sé framhald á markaðsvæðingu framleiðslu og sölu á raforku, sem var innleidd hér á landi með fyrsta og öðrum orkupakkanum í gegnum raforkulög árin 2003 og 2008. 

Um rökrétt framhald að ræða

Í samtali við mbl.is sagði Ólafur Teitur Guðnason, aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, að Ísland hefði í raun innleitt orkulöggjöf ESB fyrir mörgum árum. Stjórnskipulegt gildi þeirrar innleiðingar breytist ekkert með samþykkt þriðja orkupakkans. 

„Við höfum fyrir löngu tekið evrópskar reglur um raforku og þriðji orkupakkinn er ekkert frábrugðinn því heldur rökrétt framhald,“ segir Ólafur. 

Þá segir hann að innleiðingu þriðja orkupakkans og nýmæla hans fylgi ekki frekara valdaframsal en Ísland hefur áður gengist undir. 

Þá segir Ólafur afar skýrt að frá Íslandi verði ekki lagður sæstrengur án samþykkis íslenskra stjórnvalda. 

ACER þykir umdeilt 

Nýmæli þriðja orkupakkans eru tilgreind á vef Stjórnarráðsins. Það sem helst hefur þótt umdeilanlegt í nýmælum er stofnun Samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER) sem ætlað er að aðstoða lögbundna eftirlitsaðila í störfum sínum og eftir atvikum samhæfa aðgerðir þeirra. Orkustofnun er eftirlitsaðili á Íslandi og mun taka þátt í störfum ACER fyrir hönd Íslands og tók á sínum tíma þátt í störfum forvera þessarar stofnunar.

ACER-málið var umdeilt í Noregi og gerðu norsku þingflokkarnir sérstaka fyrirvara í sameiginlegri yfirlýsingu þegar málið var samþykkt í þinginu. Þá greinir fræðimenn á Íslandi á um hvort í þessu felist framsal á valdi sem ekki samræmist stjórnarskrá. 

Orkupakkinn var m.a. ræddur í Valhöll á laugardag.
Orkupakkinn var m.a. ræddur í Valhöll á laugardag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt ríkisstjórninni munu valdheimildir ACER og ESA samkvæmt ákvæðum þriðja orkupakkans um tengingar yfir landamæri koma til framkvæmda gagnvart Íslandi vegna lagalegs fyrirvara í þingsályktunartillögunni.

Hvað varðar lagningu sæstrengs frá Íslandi segir á vef Stjórnarráðsins: „Innleiðing þriðja orkupakkans leggur engar skyldur á herðar Íslandi að samþykkja hugsanlegan sæstreng. Enginn vafi leikur á því að íslensk stjórnvöld ákveða hvaða innlendi aðili veitir leyfi fyrir slíkum streng.“

Segir rök ríkisstjórnarinnar ekki halda vatni 

Haraldur Ólafsson, einn ritstjóra skýrslunnar, segir í samtali við mbl.is að horfa þurfi til markmiðs orkupakkanna allra. 

Segir hann að innleiðing orkupakka 1 og 2 skuldbindi Ísland ekki til að innleiða þann þriðja líka. 

„Það er svo sem engin sérstök afstaða tekin til þess hvort að bakka ætti út úr orkupakka eitt og tvö en það væri eðlilegt,“ segir Haraldur. 

„Svo mætti svona almennt séð auðvitað velta fyrir sér af hverju Íslendingar ættu að gangast undir erlenda dómstóla í svona atvinnumálum,“ segir Haraldur og vísar þar til EFTA-dómstólsins. 

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands.
Haraldur Ólafsson veðurfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands. Ljósmynd/SteinarH

Haraldur segir að skýrsluhöfundar séu sammála um að þriðju orkupakkinn rúmist ekki innan 2. greinar stjórnarskrárinnar. Verið sé að framselja vald út fyrir landsteinana. 

Segir hann rétt að velta því upp hvort EES-samningurinn sjálfur rúmist innan stjórnarskrárinnar. Hann hafi orðið „frekar og frekari“ og hafi teygt sig of langt. 

„Ef menn ætla að gleypa smáveldi gera menn það ekki í einum bita. Maður saxar þetta niður og tekur einn bita í einu,“ segir Haraldur. 

Haraldur segir þau rök ríkisstjórnarinnar fyrir samþykkt orkupakkans ekki halda vatni. 

„Það eru hverfandi líkur á að þetta setji samninginn í uppnám. Það er ekkert sem bendir til þess að svo sé. Það held ég að sé innistæðulaus hræðsluáróður,“ segir Haraldur, en ríkisstjórnin og ýmsir sérfræðingar sem hún hefur leitað til segja svo verða ef þriðji orkupakkinn verður ekki samþykktur af Alþingi. 

mbl.is