„Þetta er bara mjög móðgandi“

Rósa Björk og Silja Dögg sögðu að orð Arnars Þórs …
Rósa Björk og Silja Dögg sögðu að orð Arnars Þórs væru móðgun við sig og þingmenn almennt. mbl.is/Árni Sæberg

Til snarpra orðaskipta kom á milli þingmanna og héraðsdómarans Arnars Þórs Jónssonar á fundi utanríkismálanefndar um hádegisbil. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði málflutning Arnars móðgun við sig og aðra nefndarmenn. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tók í sama streng.

„Mér finnst mjög alvarlegt að dómari við Héraðsdóm komi og beri á borð fyrir utanríkismálanefnd viðlíka vantraust á löggjafarvaldi þjóðarinnar eins og þú ert að gera hér. Mér finnst þetta móðgun við okkur í þessari nefnd, móðgun við kjörna fulltrúa þjóðarinnar og ég verð að segja, að ásaka okkur kjörna fulltrúa um að við séum að fara að framselja vald okkar í hendur erlendra stofnana, að leggja af stað í ferðalag án fyrirheits, um trúnaðarbrest við þjóðina, gervirök, útúrsnúning, ógn við borgaralegt frelsi og háskalega uppgjöf gagnvart lögunum sem valdbeitingartóli,“ sagði Rósa Björk og vísaði þar í minnisblað sem Arnar Þór lagði fram fyrir fundinn.

Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og fyrrverandi dósent …
Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og fyrrverandi dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, var harðlega gagnrýndur af þingmönnum á fundi utanríkismálanefndar. mbl.is/RAX

Í minnisblaðinu er meðal annars talað um að að skuldbinding við að laga sig að regluverki ESB í orkumálum muni fela í sér „takmörkun á fullveldi þjóðarinnar í raforkumálum“. Hugarfar á þá leið að innleiða andmælalaust erlendar reglur, að játast undir „óbeislaða útþenslu setts réttar“ í „viljalausri þjónkun“, segir Arnar að grafi undan tilverurétti löggjafarþings Íslendinga og laganna sjálfra.

Rósa Björk taldi slíkar ásakanir á hendur alþingismönnum ótækar. „Hvernig í ósköpunum getur dómari við héraðsdóm leyft sér að bera svona á borð? Mér finnst þetta alvarlegar ávirðingar. Glapræði að innleiða tilskipunina og takmörkun á fullveldi þjóðarinnar í raforkumálum? Ég frábið mér að dómari við héraðsdóm komi og beri svona á borð við okkur og tali hér um veikingu fullveldisins. Veikingu fullveldisins? Þegar löggjafarvaldið er hluti af fullveldi þjóðarinnar? Ég sé ekki annað en að þú sért að veikja löggjafarvaldið með því sem þú ert að bera hér á borð. Mér finnst það alvarlegt,“ sagði Rósa.

„Þetta er til á upptöku“

Eftir að Rósa flutti mál sitt sagðist Arnar vilja „bera hönd yfir höfuð sér“. „Það er munur á því í mínum huga hvort verið er að bera fram varnaðarorð eða ásakanir. Í mínu minnisblaði er ég að vara við ákveðnum hlutum. Ég saka ekki nokkurn mann um eitt eða neitt. Það hins vegar gerði háttvirtur þingmaður gagnvart mér núna,“ sagði hann.

„Þar erum við mjög ósammála,“ sagði Rósa.

„Þetta er til á upptöku, þannig að við getum hlustað á það aftur,“ sagði Arnar. „Ég er vissulega dómari við héraðsdóm en ég hef út frá almennum mannréttindum á þessu landi samkvæmt stjórnarskrá tjáningarfrelsi. Þess vegna er það réttur minn eins og hvers annars að tjá mig í riti og ræðu svo framarlega sem ég tek ekki þátt í einhverju flokkspólitísku máli. Þetta mál er, eins og andstaða almennings bendir til, algerlega þverpólitískt,“ sagði hann.

Af fundi nefndarinnar í morgun, þegar Margrét Einarsdóttir kom fyrir …
Af fundi nefndarinnar í morgun, þegar Margrét Einarsdóttir kom fyrir hana. mbl.is/Árni Sæberg

„Mjög móðgandi“

Fyrr á fundinum hafði Arnar talað um að Alþingi ætti að fara með löggjafarvaldið, en ekki „erlend nefnd“. „Við eigum ekki að lúta því að sameiginlega EES-nefndin fái tak á löggjafarvaldinu hér, bara af því að við þorum ekki að fara þarna inn og biðja um undanþágur eða mótmæla og gæta okkar hagsmuna með sómasamlegum hætti,“ sagði Arnar Þór.

„Þetta snýst ekkert um að þora. Þetta er bara mjög móðgandi,“ sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir þá. 

Deilt um hvort aðfaraorð í reglugerð hafi gildi fyrir dómi

Arnar var sá eini sem kom fyrir nefndina í dag sem varaði við samþykkt þriðja orkupakkans, en boðað var til fundarins að ósk andstæðinga hans úr röðum Miðflokksins. Helstu spurningar meðal annars formanns nefndarinnar, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, lutu að því hvort aðfaraorð í regluverkinu gætu raunverulega haft lagalegt gildi fyrir dómi ef til þess kæmi að farið væri í mál við Ísland á þeim grundvelli að ekki væri búið að leggja sæstreng.

Arnar taldi að aðfaraorðin, markmiðalýsing löggjafarinnar, sem kveður meðal annars á um að sameiginlegur raforkumarkaður þjóða Evrópusambandsins sé æskilegur, gætu haft mikið gildi fyrir dómstólum ef farið væri í mál við íslensk stjórnvöld fyrir að verða ekki hluti af þessum raforkumarkaði með sæstrengi.

Næsti fundur er í utanríkismálanefnd um málið er á mánudaginn og báðu sumir fundarmenn um lengdan fundartíma á mánudeginum, þar á meðal Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Á leiðinni út af fundinum snemma sagði hún: „Þetta var náttúrulega alveg makalaust.“ Þar var hún að tala um málflutning Arnars Þórs, sem virtist henni ekki að skapi.

Miðflokkurinn bað um Davíð Þór Björgvinsson og Arnar Þór á fundinn. Orðið var við öllum beiðnum flokksins um gesti á fundinn. Á mánudaginn koma Orkan okkar, Ögmundur Jónsson, Bjarni Jónsson, Tómas Jónsson, Stefán Már og Friðrik Hirst, Bjarni Már Magnússon og fleiri fyrir fundinn.

mbl.is