„Þetta er ljós í myrkrinu“

Ófeigsfjörður.
Ófeigsfjörður. Ljósmynd/Aðsend

Talsmaður landeigenda í Seljanesi í Ingólfsfirði segist fagna þeirri ákvörðun VesturVerks að slá framkvæmdum á Ófeigsfjarðarvegi í Seljanesi á frest. Bíða landeigendur nú úrskurða samgönguráðuneytisins og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um heimild VesturVerks til framkvæmda í Seljanesi. 

„Við tökum þessu ekki sem neinum sigri en við einfaldlega álítum að fyrirtækið sé að minnsta kosti að telja einhvern vafa á þeir hafi heimild til að athafna sig með þessum hætti inni í landinu. Það eru bara nokkrir dagar í það að allur vafi verði tekinn af því, bæði með úrskurði samgönguráðuneytisins og líka úrskurði úrskurðarnefndar,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson.
Guðmundur Hrafn Arngrímsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vest­ur­Verk ætlar að bíða með vega­fram­kvæmd­ir í einhverja daga að sögn upplýsingafulltrúa fyrirtækisins. Verður farið í brú- og veg­avinnu inn­ar í Ófeigs­firði eft­ir helgi. Birna Lár­us­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi Vest­ur­Verks, sagði í samtali við mbl.is að beðið yrði með lag­fær­ing­ar í Seljanesi, meðal ann­ars til þess að halda friðinn við land­eig­end­ur. 

„Við erum ekkert farin að fagna neinu en við erum mjög ánægð með það að fyrirtækið hafi litið þannig á, miðað við öll gögn sem liggja fyrir og þann málstað sem er uppi, að þeir hafi kannski ekki haft heimild til að fara með þessum hætti inn í landið. Við fögnum því að fyrirtækið skuli að minnsta kosti vera í stakk búið til þess að viðurkenna það að það sé ekki heimild fyrir hendi til að fara inn í landið. Þetta er bara ljós í myrkrinu, að fyrirtækið skuli sjá sæng sína upp reidda að láta það vera að fara í gegnum Seljaneslandið á þennan hátt,“ segir Guðmundur. 

Telur að vegslóðinn þoli ekki þunga umferð

Landeigendur í Seljanesi hafa sagst ætla að koma í veg fyrir að framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi færist inn á þeirra land. Nú þegar þeim hluta framkvæmdanna hefur verið frestað er þó ljóst að vinnuvélar VesturVerks þurfa að fara í gegnum Seljanes svo framkvæmdir norðan við jörðina megi halda áfram. 

Framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi.
Framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar kemur að vinnuvélaakstri í gegnum Seljaneslandið þá er þarna gamall vegslóði sem einfaldlega ber ekki þessa umferð. Mér finnst það mjög mikill ábyrgðarhluti hjá verktökunum að ætla að fara með vinnuvélar og þunga umferð um þennan vegslóða sem er fyrir hendi,“ segir Guðmundur. 

„Þetta er vegslóði sem þjónar Seljanesi og Ófeigsfirði og þeirri umferð sem hefur farið þar um síðustu fimmtíu árin og ef þeir ætla sér að eyðileggja þennan veg með þessum hætti þykir mér það mikill ábyrgðarhluti. 

Ófeigsfjarðarvegur.
Ófeigsfjarðarvegur. Ljósmynd/Aðsend

„Ég held að bæði Vegagerðin og Samgöngustofa hljóti að skoða það hvort þurfi að setja þungatakmarkanir á þennan veg vegna þess að mínu viti og allra sem til þekkja þá er það deginum ljósara að vegslóðinn ber ekki þunga umferð og það er þá á ábyrgð verktakans að mæta þeim afleiðingum að skemma þennan vegslóða sem hefur verið byggður upp og haldið við í gegnum árin af heimamönnum og öðrum úr samfélaginu,“ segir Guðmundur.

Búast við að málið skýrist á næstu dögum

Land­eig­end­ur í Selja­nesi hafa kært fram­kvæmd­a­leyfi sem Árnes­hrepp­ur veitti Vest­ur­Verki í byrj­um sum­ars til úrsk­urðar­nefnd­ar um­hverf­is- og auðlinda­mála. Þá telja land­eig­end­urn­ir að Vega­gerðinni hafi ekki verið heim­ilt að fram­selja veg­hald á veg­in­um til Vest­ur­Verks og hafa kært þá ákvörðun til sam­gönguráðuneyt­is­ins.

Guðmundur segist búast við því að málið skýrist nánar í næstu viku. 

„Ég fagna því að fyrirtækið skuli vilja vinna vinnuna sína á réttan hátt og að það sé rétt farið með og rétt farið að því. Ég fagna því að fyrirtækið skuli vilja vinna þetta með friði og spekt en auðvitað er það Vegagerðarinnar og hreppsins að hafa samskipti við leyfishafa. Það breytir því líka ekki að þrátt fyrir að hreppsnefnd veiti þetta framkvæmdaleyfi þá eru þar til gerðar stofnanir í landinu sem eru að fjalla um þetta mál.

„Það er ekkert endanleg ákvörðun hreppsnefndar hvort þetta framkvæmdaleyfi heldur eða ekki. Það er þá úrskurður samgönguráðuneytisins hvort þetta framsal á veghaldi hafi verið heimilt og síðan hvort úrskurðarnefndin telji að rétt hafi verið farið með málið í skipulagsferlinu. Það er það sem við erum að bíða eftir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert