Um viðkvæmar upplýsingar að ræða

Í gögnunum eru sjúkraskrár rúmlega 250 einstaklinga og innritunarbækur á …
Í gögnunum eru sjúkraskrár rúmlega 250 einstaklinga og innritunarbækur á meðferðarstöð SÁÁ að Vík á Kjalarnesi frá árinu 1997 til 2006, sem innihalda þúsundir nafna, samkvæmt frumathugun embættis landlæknis og Persónuverndar. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

Fyrsta athugun embættis landlæknis og Persónuverndar á þeim gögnum sem fyrrverandi starfsmaður SÁÁ hafði í fórum sínum hefur leitt í ljós að þar er að finna afar viðkvæmar persónuupplýsingar skjólstæðinga SÁÁ, sem hlotið hafa meðferð á Vík á Kjalarnesi.

Í gögnunum eru sjúkraskrár rúmlega 250 einstaklinga og innritunarbækur á meðferðarstöð SÁÁ að Vík á Kjalarnesi frá árinu 1997 til 2006, sem innihalda þúsundir nafna.

Auk þess er um að ræða fundabækur AA-funda fyrir tiltekin ár frá meðferðarheimilinu að Sogni, samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá embætti landlæknis og Persónuvernd, sem hófu yfirferð á sjúkragögnunum í morgun.

Fyrst var fjallað um málið á mbl.is 23. júlí síðastliðinn. Þá lýsti Hjalti Þór Björnsson, starfsmaður SÁÁ til þriggja áratuga, því í samtali við blaðamann að hann hefði fengið gögnin send heim til sín úr höfuðstöðvum SÁÁ ásamt fleiri persónulegum munum.

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, sór fyrir það í samtali við blaðamann og sakaði Hjalta um að hafa sjálfur tekið gögnin með sér heim. Hann hefur sagt að SÁÁ viti ekki um hvaða gögn sé að ræða.

Lögregla látin vita af málinu

Stofnanirnar hafa gert lögreglu viðvart um málið, þar sem í lögum um sjúkraskrár segir að ef eftirlit stofnananna leiði í ljós að verulegar líkur séu á að brotið hafi verið gegn persónuverndarhagsmunum sjúklings skuli brot kært til lögreglu.

„Gögnin eru nú, og munu verða, í öruggri vörslu embættis landlæknis og Persónuverndar á meðan umfang málsins verður skoðað frekar og næstu skref stofnananna verða ákveðin,“ en málið er litið „mjög alvarlegum augum“.

„Embætti landlæknis, sem hefur eftirlit með heilbrigðisþjónustu sem og því að ákvæði laga um sjúkraskrár séu virt, mun stofna til eftirlitsmáls vegna þessa. Þá hefur Persónuvernd hafið frumkvæðisathugun á þeim þætti málsins sem lýtur að öryggi persónuupplýsinga, í samræmi við heimildir í persónuverndarlögum, meðal annars í þeim tilgangi að meta hvernig SÁÁ beri að haga tilkynningu til þeirra einstaklinga sem upplýsingarnar varða,“ segir í tilkynningu stofnananna.

mbl.is