Átta gistu fangageymslur í borginni

Þónokkrir voru stöðvaðir við akstur, ýmist dópaðir, drukknir eða bæði. …
Þónokkrir voru stöðvaðir við akstur, ýmist dópaðir, drukknir eða bæði. Einn þeirra, sem stöðvaður var í Fossvogi skömmu eftir miðnætti, var á negldum vetrardekkjum. mbl.is/Eggert

Nokkuð hvasst var á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og þakplötur fuku á tveimur stöðum, frá byggingarsvæði í Grafarholti og af þaki fjölbýlishúss í Fellahverfi í Breiðholti. Þar mun þakplata hafa lent á tveimur bifreiðum, samkvæmt því sem fram kemur í samantekt lögreglu um verkefni kvöldsins og næturinnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögregla hafði í nægu að snúast, en alls voru 109 mál skráð í dagbók lögreglu frá kl. 17-05 og þurfti að stinga átta manns í fangaklefa af ýmsum ástæðum.

Sleginn í andlitið með glasi

Líkamsárás var framin á veitingastað í miðbæ Kópavogs á tíunda tímanum í gærkvöldi, en þar mun maður hafa verið sleginn í andlitið með glasi og var hann fluttur á slysadeild. Tveir menn voru svo handteknir á sömu slóðum laust fyrir kl. 23, grunaðir um líkamsárás, en ekki er tekið fram um hvort málin tengist.

Fjöldi mála kom upp í miðborginni, en þar reyndi meðal annars einn maður að veitast að lögreglumönnum eftir að hafa verið í slagsmálum. Hann var í annarlegu ástandi og handtekinn, en var sleppt eftir skýrslugjöf.

Fleiri voru í annarlegu ástandi. Á fimmta tímanum í nótt var maður handtekinn á Lækjargötu eftir að hafa verið að áreita tvær konur og hafði sá hinn sami slegið í bifreið. Þá þurfti lögregla að handtaka mann sem var ofurölvi á veitingastað í miðborginni um kl. 23 í gærkvöldi og fékk sá að sofa úr sér í fangaklefa.

Þá var maður handtekinn í Austurstræti á fimmta tímanum fyrir þjófnað úr verslun. Honum var sleppt eftir skýrslutöku.

Tveir menn voru handteknir á tólfta tímanum í póstnúmeri 105, en þeir eru grunaðir um vörslu fíkniefna og brot á lyfja- og vopnalögum. Annar þeirra er enn í fangageymslu á meðan málið er til rannsóknar.

Þá voru þónokkrir stöðvaðir við akstur, ýmist dópaðir, drukknir eða bæði. Einn þeirra, sem stöðvaður var í Fossvogi skömmu eftir miðnætti, var á negldum vetrardekkjum.

mbl.is