Lögblind en kann prjónauppskriftirnar utan að

Jóhanna ætlar að verja deginum með fjölskyldunni.
Jóhanna ætlar að verja deginum með fjölskyldunni. Ljósmynd/Jóhanna Kristín Andrésdóttir

Jóhanna Hjaltadóttir fagnar hundrað ára afmæli sínu í dag. Mun hún fagna afmælinu með garðveislu á heimili sínu ásamt börnum og barnabörnum.

Jóhanna fæddist í Eyjafirði en foreldrar hennar voru Hjalti Gunnarsson, bóndi á Ytri-Bakka í Eyjafirði og síðar kaupmaður í Reykjavík, og kona hans Ásta Ásgeirsdóttir. Þess má geta að faðir Jóhönnu var bróðir Jóhannesar Gunnarssonar, biskups rómversk-kaþólsku kirkjunnar, og móðir hennar systir Ásgeirs Ásgeirssonar, fyrrverandi forseta Íslands.

Jóhanna giftist lýðveldisárið Birni Helgasyni frá Hnausakoti í Vestur-Húnavatnssýslu, en hann er samvinnuskólagenginn. Saman eignuðust þau fimm börn og eru fjögur þeirra enn á lífi. Sjálf útskrifaðist Jóhanna úr Kvennaskólanum og tók að honum loknum kennarapróf árið 1939.

Jóhanna er prjónahönnuður og hefur í gegnum tíðina hannað ótal prjónamunstur fyrir ýmis fyrirtæki. Hún segist enn stunda prjónaskap af kappi.

„Þótt ég sé lögblind, þá kann ég þetta utan að,“ segir Jóhanna, sem segist enn vera með prjónauppskriftirnar og mynstrin greypt í minnið. „Líka smákökuuppskriftir, en nú bakar unga fólkið bara fyrir mig,“ segir hún og hlær. „Þeim þykir gaman að því eins og mér þótti þetta gaman á meðan ég sá betur.“

Jóhanna þakkar langlífi sitt því að hafa alltaf borðað hollan mat og verið reglusöm.

Hún segist hlakka til afmælisveislunnar og vonast eftir góðu veðri og segir að yfirleitt sé gott veður á afmælisdaginn. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »