Metfjöldi á Ísdegi Kjörís í Hveragerði

Rúmlega 10 þúsund gestir mættu á Ísdaginn.
Rúmlega 10 þúsund gestir mættu á Ísdaginn. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta hefur gengið rosalega vel, alveg meiriháttar. Ég held við höfum sjaldan verið með jafn marga gesti og í dag,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjörís, í samtali við mbl.is um Ísdag Kjöríss sem haldin var í dag samhliða bæjarhátíðinni Blómstrandi dagar í Hveragerði.

Talið er að yfir tíu þúsund manns hafi mætt og bragðað nýjar og hefðbundnar tegundir af ís en gestir innbyrtu um það bil þrjú tonn af ís í dag.

Krökkunum leiddist svo sannarlega ekki á Ísdeginum.
Krökkunum leiddist svo sannarlega ekki á Ísdeginum. Ljósmynd/Aðsend

Aspasís fer ekki í framleiðslu

Boðið var upp á ýmiss konar nýjar bragðtegundir, sumar hittu í mark hjá gestum en aðrar alls ekki. Vinsælastur var Bragðarefurinn sem innihélt þrista og kókosbollur. Fast á hæla hans kom lakkrís- og hindberjaís. 

Einhverjar af nýjungunum sem boðið var upp á í dag verða settar í almenna framleiðslu segir Guðrún en bætir við: „Það er alveg á hreinu að við erum ekki að fara framleiða Bloody Mary-ísinn sem var líklega versti ís dagsins. Sweet chili-ísinn var heldur ekki að virka og aspasísinn naut ekki mikillar lýðhylli.“

Önnur stúlkan gæðir sér á lúsmís og virðist kunna vel …
Önnur stúlkan gæðir sér á lúsmís og virðist kunna vel við hann. Ljósmynd/Aðsend

Lúsmísinn fékk góðar viðtökur

Ísdagurinn í dag var sá þrettándi sem haldinn hefur verið og verður sífellt vinsælli. Í dag hélt Kjörís einnig upp á 50 ára afmæli sitt. Boðið var upp á þétta skemmtidagskrá í tilefni þess og léku nokkrir af vinsælustu skemmtikröftum þjóðarinnar fyrir söng og dansi. Ingó veðurguð kom með gítarinn, Hr. Hnetusmjör fór með rímur og Daði Freyr tók nokkur lög.

Lúsmísinn kom mjög vel út en hann var blóðrauður með jarðaberjabragði og innihélt íblöndunarefni sem létu hann líta og bragðast út eins og flugur væru í honum. Þá var heill bás fyrir vegana og grænkera og Guðrún segir að aldrei sé að vita nema fleiri slíkar tegundir fari í framleiðslu.

Nýju bragðtegundirnar slógu sumar í gegn en aðrar ekki.
Nýju bragðtegundirnar slógu sumar í gegn en aðrar ekki. Ljósmynd/Aðsend
BMX Brós sýndu listir sínar.
BMX Brós sýndu listir sínar. Ljósmynd/Aðsend
Herra Hnetusmjör kann að skemmta lýðnum.
Herra Hnetusmjör kann að skemmta lýðnum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is