„Sterk rök með og á móti“

Katrín Jakobsdóttir segir að verði RÚV tekið af auglýsingamarkaði þurfi …
Katrín Jakobsdóttir segir að verði RÚV tekið af auglýsingamarkaði þurfi að mæta tekjutapinu með einhverjum hætti, líklega hækkun útvarpsgjalds. mbl.is/Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að verði sú leið farin að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði verði að mæta því tekjutapi með einhverjum hætti, líklegast með hækkun útvarpsgjalds. En „það eru sterk rök með þessu en einnig á móti þessu,“ segir Katrín um þennan kost. 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sagði í viðtali á forsíðu Morgunblaðsins í gær að hún teldi farsælast að ríkisfjölmiðillinn væri ekki á auglýsingamarkaði, eins og því er farið á öðrum Norðurlöndum.

Málið hefur eins og alþjóð veit verið rætt fram og til baka í áranna rás og ýmis sjónarmið komið fram. Katrín segir nú í samtali við mbl.is að þetta komi vel til greina en hafi þó enn ekki verið rætt formlega innan ríkisstjórnarinnar.

„Lilja hefur ekki lagt fyrir ríkisstjórnina breytt fjölmiðlafrumvarp þar sem kveðið er á um þetta en út frá þessu vænti ég að það sé í undirbúningi,“ segir Katrín. 

Lilja lagði fram frumvarpsdrög í febrúar, tók við umsögnum og lagði fram ný drög. Síðan stóð til að mæla fyrir breyttu frumvarpi inni á Alþingi fyrir þinglok en svo fór ekki en það verður líklega gert í haust, með þeim nýmælum í frumvarpinu, að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði.

Tvær lykilspurningar

Katrín telur að áður en svona ákvörðun sé tekin þurfi að svara tveimur spurningum:

I) Mun breytingin hafa þau áhrif að auglýsingatekjur annarra innlendra fjölmiðla verði meiri eða mun auglýsingamarkaðurinn einfaldlega minnka því sem nemur umsvifum RÚV og tekjurnar sem fóru þangað færast yfir til erlendra stórfyrirtækja eins og Facebook?

II) Verði af þessu, verður þá hægt að tryggja að ekkert tekjutap verði hjá RÚV, til dæmis með hækkun útvarpsgjalds?

Þetta segir Katrín að þurfi að liggja fyrir áður en lengra verður gengið. „Ég hef alltaf lagt áherslu á það,“ segir Katrín, „að verði þessi leið farin, þurfi að bæta RÚV tekjutapið.“ RÚV eigi að hafa trausta tekjulind í formi útvarpsgjalds, en ekki að vera á fjárlögum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir kemur líklega til með að kynna hugmyndir …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir kemur líklega til með að kynna hugmyndir sínar um að taka RÚV af auglýsingamarkaði fyrir ríkisstjórn á næstunni. Hún hefur lýst því yfir að hún vilji grípa til þeirrar aðgerðar til að jafna stöðuna á fjölmiðlamarkaði. mbl.is/​Hari

Næsti ríkisstjórnarfundur er á föstudaginn kemur. Ekkert er þó sem segir sérstaklega að Lilja taki málið upp á þeim fundi.

Í frum­varp­i Lilju eins og það hefur áður verið lagt fram er lagt til að fjöl­miðlar fái 25% af launa­kostnaði við rekst­ur rit­stjórn­ar end­ur­greidd­an úr rík­is­sjóði en að sú end­ur­greiðsla muni aldrei nema meiru en 50 millj­ón­um. Til viðbótar verður 5,15% endurgreiðsla einnig í boði, sem mun ekki hafa neitt þak. Sú viðbót var gerð eftir umkvartanir stærri fjölmiðla, á þá leið að 50 milljónir væru ekki nægilegur stuðningur við þá, hlutfallslega.

mbl.is

Bloggað um fréttina