Vel heppnuð hátíð á afskekktri eyju

„Börnin sýndu hreint undraverða leikni við skákborðið og öll voru …
„Börnin sýndu hreint undraverða leikni við skákborðið og öll voru þau jafn áhugasöm og yndislegt að upplifa leikgleðina,“ segir Hrafn Jökulsson, formaður Hróksins. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var sannkölluð ævintýraferð og gekk öllum vonum framar,“ segir Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins. Á fimmtudag lauk hátíð Hróksins í Kullorsuaq, 450 manna þorpi á samnefndri eyju á 74. breiddargráðu við vesturströnd Grænlands, með sirkussýningu og fyrsta meistaramóti bæjarins í skák.

Meirihluti bæjarbúa og nánast öll börnin í Kullorsuaq tóku þátt í hátíðinni, þar sem gleðin var allsráðandi. Hrókurinn skipulagði hátíðina annað árið í röð í samvinnu við heimamenn.

Sirkuslistamennirnir Axel Diego og Roberto Magro voru með sirkusskóla fyrir börn og fullorðna og slógu upp mikilli sýningu í íþróttahúsi bæjarins í hátíðarlok. Þeir voru líka í föruneyti Hróksins til Kullorsuaq í fyrra og segir Roberto að Kullorsuaq sé einstakur staður.

Kullorsuaq er 450 manna þorp á afskekktri eyju við vesturströnd …
Kullorsuaq er 450 manna þorp á afskekktri eyju við vesturströnd Grænlands. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef sýnt og kennt í flestum heimsálfum, en aldrei kynnst öðru eins og hérna,“ sagði Roberto. Hann segir að jafnt ung börn sem veðurbarðir veiðimenn hafi sýnt einstaka takta og hæfileika. „Það býr einhver galdur hér í Kullorsuaq. Og að heilt þorp taki þátt í hátíð af þessu tagi er óviðjafnanlegt.“

Börnin sýndu hreint undraverða leikni“

Hrafn kenndi skák í grunnskólanum, þar sem eru um hundrað nemendur, og hann var ekki síður í skýjunum með árangurinn. „Við búum að heimsókninni í fyrra og þá var stofnað skákfélag í bænum. Börnin sýndu hreint undraverða leikni við skákborðið og öll voru þau jafn áhugasöm og yndislegt að upplifa leikgleðina,“ segir Hrafn og bætir við að undirbúningur fyrir næstu hátíð í Kullorsuaq sé þegar hafinn.

Börnin sýndu líka sannarlega hvað í þeim bjó á fyrsta meistaramóti Kullorsuaq í skák, sem haldið var á fimmtudagskvöld. „Þau veittu fullorðnum og reyndum skákmönnum harða samkeppni og unnu af þeim ófáar skákir. Framtíðin hér svo sannarlega björt, jafnt í skák sem sirkuslistum.“

Þrjátíu og tveir keppendur á öllum aldri og af báðum kynjum tóku þátt í meistaramótinu. ,„Það er eiginlega ótrúlegt. Hér í þessu litla eyþorpi voru fleiri keppendur en á meistaramóti Nuuk, með sína 18.000 íbúa,“ segir Hrafn. Það var formaður skákfélagsins í Nuuk, Ole Danielsen, sem stóð uppi sem sigurvegari, eftir æsispennandi keppni. Silfrið hreppti Thimothes Petersen og bronsið Niels Aronsen. Hinn ungi og bráðefnilegi Angunnguaq Kristensen náði bestum árangri grunnskólabarna.

Um 100 börn eru í skólanum.
Um 100 börn eru í skólanum. Ljósmynd/Aðsend

Efstu menn fengu veglega bikara og verðlaunapeninga og sigurvegarinn fékk auk þess skál úr hvalbeini eftir lista- og handverksmanninn Valgeir Benediktsson frá Árnesi í Trékyllisvík. Allir keppendur og gestir á sirkushátíðinni og meistaramótinu voru leystir út með gjöfum, enda komu liðsmenn Hróksins klyfjaðir til Kullorsuaq.

Helsti bakhjarl Hróksins í þessari ævintýraferð var Air Iceland Connect, en aðrir sem lögðu lið voru m.a. ÍsSpor, KSÍ, Penninn, Air Greenland að ógleymdum fjölmörgum íslenskum hannyrðakonum. Heiðbjört Ingvarsdóttir lagði meðal annars til gnótt af böngsum sem hún hafði prjónað föt á, auk þess sem hún safnaði garni, ull og prjónavörum sem vöktu mikla lukku.

Færðu börnunum bangsa

Liðsmenn Hróksins heimsóttu m.a. leikskólann í Kullorsuaq með bangsa handa börnunum og ungmennin í æskulýðsmiðstöðinni fengu væna sendingu af garni og ull, enda mjög áhugasöm um hannyrðir og prjónaskap.

Hrafn segir að undirbúningur fyrir næstu hátíð í Kullorsuaq sé þegar hafinn.

„Hér býr sannkölluð kraftaverkakona, Birgitta Kamman Danielsen, sem átti hugmyndina að því að við kæmum hingað með veislu í farangrinum. Hún er allt í senn viðburðastjóri bæjarins, kennari og félagsráðgjafi, og lífið og sálin í öllu sem gerist í þessum mikla veiðimannabæ á hjara veraldar. Ástríða Birgittu er hrífandi og hún sigrast á öllum hindrunum. Það er meira en að segja það að skipuleggja slíka gleðinnar hátíð á hjara veraldar.“

mbl.is