Lambahryggir vógu að rótum hjartans

Sigrún Magnúsdóttir fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra.
Sigrún Magnúsdóttir fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Eggert

Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, fór um víðan völl í ræðu sinni á Hólahátíð í dag. Eða það sagði hún að hún ætlaði að gera, í samtali við mbl.is fyrr í dag, þar sem hún deildi hluta af Hólaræðu sinni og hugleiðingum um hin ýmsu mál. Vegið var að rótum hjarta hennar með innflutningi á lambahryggjum í sumar.

Í samtali við blaðamann mbl.is á leið sinni að Hólum á öðrum tímanum í dag sagði Sigrún að í ræðunni ætlaði hún að ganga út frá einkunnarorðum Háskólans á Hólum: „Á rótum fortíðar og vængjum framtíðar.“ „Ég lít til baka en reyni að fá aðeins loft í vængina til að sýna fram á að það er ýmislegt gott að gerast í framtíðinni,“ sagði Sigrún.

Hún leit til baka hvað varðar Hóla, en hún telur það „alvarlegustu byggðaröskun sem hefur orðið á Íslandi“ þegar allt var flutt frá Hólum og suður til Reykjavíkur. „Þetta var gríðarlegt högg fyrir Norðurland,“ segir Sigrún, en annars voru íslenska tungan og umhverfismálin helst til umfjöllunar í ræðu hennar. Og lambahryggir frá Nýja-Sjálandi.

Sigrún hugðist líta til baka hvað varðar Hóla í ræðu …
Sigrún hugðist líta til baka hvað varðar Hóla í ræðu sinni, en hún telur það „alvarlegustu byggðaröskun sem hefur orðið á Íslandi“ þegar allt var flutt frá Hólum og suður til Reykjavíkur og í Skálholt. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Varar við heimsendaspám um loftslagsmál

„Ég vil vara við að menn séu með heimsendaspár því hver kynslóð hefur þurft að búa við sínar ógnir eða breytingar og maður má ekki ala ungmenni upp í því að allt sé að fara veg allrar veraldar,“ segir Sigrún.

Með þessu vísar Sigrún til umræðna um loftslagsmál, sem eru henni hugleiknar. Hún hefur trú á því að unga fólkið í dag hafi það sem til þarf og finni lausnir á vandanum.

„Hver kynslóð hefur þurft að eiga við ýmsar ógnanir og hættur, heimsstyrjaldir og aðrar hamfarir. Ég hef fulla trú á unga fólkinu í dag, að við finnum leiðir til þess að breyta rétt og laga okkur að því sem er að gerast. Finna grænar lausnir.“

Neyslan verður að minnka

Sigrún segir að henni þyki framfarir svo örar, „að þetta muni bjargast“. Hún segir þó að hver og einn einasti maður þurfi að huga að eigin neyslu og því að breyta henni.

„Maður þarf að taka til í öllu,“ segir Sigrún og bætir við að innflutningur á lambahryggjum, sem mikið hefur verið rætt um undanfarið, hafi sýnt henni fram á að Íslendingar eigi langt í land í því að breyta neysluhegðun sinni.

Lambahryggur. Af hverju má þá ekki skorta í nokkrar vikur, …
Lambahryggur. Af hverju má þá ekki skorta í nokkrar vikur, spyr Sigrún. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það var vegið að rótum hjarta míns með þessari vitleysu. Það er það mest „absúrd“ sem hægt er að gera. Það sannar að við höfum ekki lagað hugsunina í umhverfismálum. Það sýnir ofneysluna, neysluhyggjuna alveg í raun. Að flytja inn lambahryggi, eina afurð sem kannski skortir í örfáa daga eða vikur - og fullt til af öðru lambakjöti. Að flytja þá líka inn gamalt kjöt frá Nýja-Sjálandi!“ segir Sigrún hneyksluð, en færslur úr frystihólfum stórmarkaða fóru nokkuð víða á samfélagsmiðlum í sumar og sýndu þær lambahryggi af nýsjálensku sauðfé, sem báru upprunaársmerkinguna 2017.

Hún segir að íslenska þjóðin ætti að geta verið án þess að steikja lambahryggi í nokkrar vikur. „Það má nú alveg skapa ákveðna eftirvæntingu eftir einhverju góðu. Þess vegna heitir aðventa að-venta, við erum að bíða eftir jólunum,“ segir Sigrún.

„Það má stundum aðeins dempa neysluna! Hitt er mjög ríkt í okkur, við viljum að allt sé til og alltaf, þetta verður erfiðast, að breyta hugsun og hegðun.“

Orð sumarsins er „þroskaþjófur“

Í ræðu sinni ætlaði Sigrún einnig að vekja athygli á sýningunni Óravíddir málfarsins sem nú er í gangi niðri í Safnahúsi. „Þar er orðunum þeytt út í geiminn og maður fer að skynja þessar þrautir og vefinn sem bæði stjörnur og orð mynda með sér. Það er mjög gaman að velta því fyrir sér,“ segir Sigrún.

Hún segir að orð sumarins hjá sér sé „þroskaþjófur“. Og á þar við um síma. Eru þeir „þroskaþjófar“ á andlegt atgervi barna og ungmenna? Eða eru þeir undratæki sem hjálpa til við ala upp kynslóð sem hefur náð að sanka að sér meiri þekkingu en þær kynslóðir sem áður komu?

„Já þetta er stór spurning,“ segir Sigrún, sem kveðst upptekin af orðum. „Þau segja manni oft mjög margt og það er skemmtilegt að velta því fyrir sér.“

Á þeim nótum lýkur samtali blaðamanns og Sigrúnar, sem var á leiðinni í guðsþjónustu í Hóladómkirkju, sem áður segir.

Snjallsímar. Eru þeir „þroskaþjófar“ á andlegt atgervi barna og ungmenna? …
Snjallsímar. Eru þeir „þroskaþjófar“ á andlegt atgervi barna og ungmenna? Eða eru þeir undratæki sem hjálpa til við ala upp kynslóð sem hefur náð að sanka að sér meiri þekkingu en þær kynslóðir sem áður komu? mbl.is/Eggert
mbl.is