Okjökull kvaddur með viðhöfn

Horft yfir Okið, fönnina sem þar til fyrir fáum árum …
Horft yfir Okið, fönnina sem þar til fyrir fáum árum var hægt að kalla jökul. Minningarathöfn fer fram þar í dag, um jökul sem var. mbl.is/RAX

„Í dag kveðjum við formlega jökulinn Ok en hann er fyrstur íslenskra jökla til að hverfa á tímum loftslagsbreytinga. Landslagið er vissulega enn þá fallegt, en fegurðin dvínar í augum okkar sem vitum hvað var þarna áður og hvers vegna það er horfið.“

Svo skrifar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í færslu á Facebook, en laust fyrir hádegi hófst athöfn á Oki í Kaldadal í Borgarfirði þar sem minningarskjöldur um jökulinn horfna var afhjúpaður, en Okjökull hætti að vera jökull samkvæmt skilgreiningum vísindamanna árið 2014.

Um eitt hundrað manns eru viðstödd, en afhjúpun skjaldarins hefur vakið heimsathygli undanfarið og beint augum að þeirri staðreynd að á Íslandi er jökulísinn að hverfa.

Forsætisráðherra segir að í dag rísum við upp, „efldari en nokkru sinni í baráttunni fyrir náttúrunni.“ „Við stöndum frammi fyrir fordæmalausri stöðu. Í dag er tími aðgerða því afleiðingar hamfarahlýnunar blasa við um heim allan. Hitabylgjur, flóð, þurrkar og öfgakenndar sveiflur eru birtingarmyndin og valda neyð og hörmungum,“ skifar Katrín, sem hefur í vikunni ritað greinar um hvarf jökulsins og nauðsyn þess að takast á við loftslagsbreytingar, meðal annars í New York Times.

„Við verðum að gera þetta saman: fyrir jöklana, fyrir framtíðina og fyrir okkur sjálf,“ skrifar forsætisráðherra í dag.

Cymene Howe, Dominic Boyer og Andri Snær Magnason með minningarskjöldinn …
Cymene Howe, Dominic Boyer og Andri Snær Magnason með minningarskjöldinn í vikunni. mbl.is/Sigurður Bogi

Að uppsetningu skjaldarins á Oki standa Cymene Howe og Dominic Boyer, mannfræðingar og rannsóknafólk við Rice-háskóla í Texas í Bandaríkjunum. Einnig koma að málum Oddur Sigurðsson jöklafræðingur og Andri Snær Magnason sem er höfundur texta á minningarskildinum sem ber yfirskriftina Bréf til framtíðar.

Í texta Andra Snæs á skildinum segir að búast megi við að á næstu 200 árum fari allir jöklar sömu leið og Okjökull. Hvarf hans geti verið upphafið að öðru og meira.

Færslu Katrínar má lesa í heild sinni hér að neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina